Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,6% í 1,6 milljarða króna veltu á fyrsta viðskiptadegi 2023. Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Reita lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,2%.

Átta önnur félög lækkuðu um 1% eða meira, þar á meðal Arion banki og Marel. Hlutabréfagengi Marels féll um 1,2% í 244 milljóna veltu og stendur nú í 484 krónum á hlut.

Icelandair hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3% í 235 milljóna viðskiptum. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,66 krónum á hlut. Mesta veltan var með bréf Síldarvinnslunnar sem hækkuðu um 0,8% í 245 milljóna viðskiptum.

Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 5,4 milljörðum í dag. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 6-14 punkta og krafan á verðtryggðum ríkisbréfum hækkaði um 4-10 punkta. Fjármálaráðuneytið birti stefnu í lánamálum ríkisins fyrir árin 2023-2027 á föstudaginn.