Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,6% í 6,6 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög aðalmarkaðarins hækkuðu um meira en 1% og þar af voru fimm sem hækkuðu um meira en 3%.
Icelandair leiddi hækkanir en gengi flugfélagsins hækkaði um 5,2% í eins milljarðs króna viðskiptum og stendur nú í 1,78 krónum á hlut.
Kvika banki hækkaði næst mest eða um 4,1% í 1,2 milljarða króna viðskiptum. Gengi bankans stendur nú í 19,2 krónum. Kvika birti uppgjör fyrir þriðja fjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta hjá Kviku á þriðja fjórðungi var 17,7% og hagnaður fyrir skatta um 1,8 milljarðar.
Þá hækkaði gengi Marels um 3,9% í 750 milljóna veltu og stendur nú í 510 krónum á hlut. Eimskip og Sjóvá hækkuðu einnig um meira en 3%.
Þrjár helstu bandarísku hlutabréfavísitölurnar hækkuðu um 3,7%-7,4% í gær og áttu allar sinn besta dag í rúmlega tvö ár.