Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,5% í 4,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf níu félaga aðalmarkaðarins hækkuðu um meira en 1% í dag.

Icelandair leiddi hækkanir en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 7,2% og stendur nú í 1,93 krónum á hlut. Velta með bréf félagsins nam 660 milljónum í 180 viðskiptum. Gengi Icelandair hefur nú hækkað um nærri 20% frá áramótum.

Iceland Seafood hækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4,4% í 65 milljóna veltu. Gengi Iceland Seafood stendur nú í 7,1 krónu eftir 17% hækkun í ár.

Auk Icelandair og Iceland Seafood hækkuðu hlutabréf Kviku banka, Brims, VÍS, og Skeljar um 2% eða meira í dag.