Verð á hlutabréfum í Icelandair hækkaði um 7,35% í 530 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í gær birti Icelandair uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung en í því kom fram að félagið hafi hagnast um 7,5 milljarða íslenskra króna á fjórðungnum.
Alls hækkuðu ellefu félög í viðskiptum dagsins en á eftir hæla Icelandair kom Síminn en hann hækkaði um 4,08% í 153 milljón króna viðskiptum í dag. Síminn birti uppgjör sitt í gær en í því kom fram að félagið hafi hagnast um rétt tæpan milljarð íslenskra króna.
Aðeins þrjú félög lækkuðu í viðskiptum dagsins en það voru Origo, Hagar og Heimavellir. Origo leiddi lækkanirnar hjá þessum félögum en verð á hlutabréfum í fyrirtækinu lækkaði um 1,11% í 16 milljóna króna viðskiptum.
Heildarvelta á hlutabréfamarkanum nam 1,6 milljörðum króna. Hlutabréfavísitalan OMXI8 hækkaði um 1,66% í viðskiptum dagsins.