Icelandair hagnaðist um 12,9 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 1,65 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 0,6 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Flugfélagið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Rekstrarhagnaður dregst saman
Heildartekjur flugfélagsins á öðrum fjórðungi jukust um 13% milli ára og námu 59,1 milljarði króna. Farþegatekjur jukust um 11% milli ára og námu milljörðum króna, og hafa aldrei verið meiri á öðrum fjórðungi hjá flugfélaginu.
EBIT-hagnaður Icelandair nam 775 þúsund dala á fjórðungnum samanborið við 3,3 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Einingakostnaður Icelandair var nær óbreyttur og nam 7,98 sentum og einingatekjur lækkuðu um 2% á milli ára og námu 7,77 sentum.
Sjóðstreymi frá rekstri nam 15,1 milljarði króna og jókst um 1 milljarð króna á milli ára. Lausafjárstaða félagsins nam 69,4 milljörðum króna í lok fjórðungsins og hefur aldrei verið meiri á þessum tíma árs.
Bogi: Gengi krónunnar ósjálfbært
Flugfélagið segir styrkingu krónunnar og minni eftirspurn á via markaðnum vegna stöðu alþjóðamála hafa haft áhrif á EBIT afkomu félagsins.
„Afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi var betri en á sama tíma í fyrra þegar horft er á hagnað eftir skatta,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Áframhaldandi áhersla okkar á aukna skilvirkni og áreiðanleika leiðakerfisins endurspeglaðist í framúrskarandi stundvísi en við vorum stundvísasta flugfélag í Evrópu í apríl og júní, sem sýnir frábæran árangur Icelandair teymisins. Hins vegar hafði minni eftirspurn á Atlantshafsmarkaðnum sem rekja má til stöðu alþjóðamála sem og veruleg styrking íslensku krónunnar neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna í fjórðungnum.“
Bogi bendir á að raungengi íslensku krónunnar sé nú nálægt sögulegu hámarki.
„Sagan sýnir að þessi staða er ósjálfbær og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda endurspegli þennan veruleika, ekki síst í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt áform um að auka skattlagningu á ferðaþjónustu.“
Í því ljósi hafi „aldrei verið mikilvægara en nú“ að einblína á þá þætti í rekstrinum sem flugfélagið hafi stjórn á eins og strangt kostnaðaraðhald, bætta skilvirkni, ábyrga stýringu á flugframboði og aukna tekjumyndun.
Hann nefnir í því samhengi að í lok annars ársfjórðungs hafði flugfélagið ráðist í hagræðingaraðgerðir sem muni skila 90 milljónum dala á ársgrundvelli, eða sem nemur 11 milljörðum króna á núverandi gengi, þegar þær eru komnar að fullu til framkvæmda.
Sterkari bókunarstaða á þriðja fjórðungi en hægari til lengri tíma
Flugfélagið segir bókunarstöðu sína í þriðja ársfjórðungi vera betri en á sama tíma í fyrra. Icelandair gerir ráð fyrir að afkoma félagsins muni batna á milli ára í fjórðungnum.
„Bókanir til lengri tíma, í haust og næsta vetur, halda áfram að vera hægari en á sama tíma í fyrra. Við erum bjartsýn á framhaldið þar sem við sjáum að fólk heldur áfram að setja ferðalög í forgang þrátt fyrir að bóka ferðir sínar með minni fyrirvara en áður,“ segir Bogi.
„Með þeim breytingum sem eru að verða í framboði til og frá Íslandi og umbreytingarvegferð okkar sem er þegar farin að skila árangri erum við í góðri stöðu til að takast á við tímabundnar sveiflur, styrkja markaðsstöðu félagsins og skapa virði til lengri tíma fyrir hluthafa, viðskiptavini og íslenskt efnahagslíf og samfélag.“