Portúgalska höfuðborgin Lissabon bætist við leiðakerfi Icelandair í vetur en flogið verður tvisvar í viku til borgarinnar, á mánudögum og föstudögum, frá 11. október. Icelandair og portúgalska flugfélagið TAP hafa þá skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf um sammerkt flug.
„Það er afar ánægjulegt að bæta Lissabon við okkar öfluga leiðakerfi og um leið að auka samstarf okkar við TAP. Lissabon er mjög spennandi áfangastaður og aukið samstarf flugfélaganna mun bæta við þægilegum tengimöguleikum til Brasilíu og Afríku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Félögin hafa átt í samstarfi um árabil en með sammerktu flugi munu viðskiptavinir geta nýtt tengingar á milli leiðakerfa flugfélaganna og aukið úrval tengimöguleika. Þannig opnast tengingar frá Íslandi til Lissabon, en jafnframt áfram til áfangastaða TAP víða um heim.
„Samstarfið við Icelandair mun auka úrval ferðamöguleika og áfangastaða sem viðskiptavinir okkar geta valið úr. Þannig munu opnast þægilegar tengingar til Íslands, sem er einn af mest spennandi áfangastöðunum í dag, og fjölmargar tengingar fyrir viðskiptavini Icelandair um öflugt leiðakerfi okkar frá Lissabon. Við hlökkum til að starfa með Icelandair að því að auðvelda fólki að ferðast um heiminn,“ segir Luís Rodrigues, forstjóri TAP.