Hótelkeðjan Icelandair Hotels, sem malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya lauk kaupum á fyrir rúmu ári, hafa tilkynnt um nafnabreytingu. Nafni hótelkeðjunnar hefur verið breytt í Berjaya Iceland Hotels. Þá hefur nafni félagsins utan um hótelkeðjuna, Flugleiðahótel hf., verið breytt í Iceland Hotel Collection by Berjaya.
Berjaya gerði samkomulag við Icelandair Group um að láta af notkun vörumerkis þess síðarnefnda að lokinni sölu hótelfélagsins. Í árshlutareikningi Icelandir fyrir þriðja ársfjórðung 2021 kom fram að hótelkeðjan hefði tólf mánuði til að skipta um nafn.
Hótelfélagið, sem nú heitir Iceland Hotel Collection by Berjaya, rekur alls þrettán hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni, undir nokkrum ólíkum vörumerkjum.
„Nöfn hótela innan keðjunnar haldast óbreytt, með skírskotun í nærumhverfi og sérstöðu hvers hótels, en þau eru Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hérað, Akureyri hótel og Mývatn hótel.“
Við nýja keðju Berjaya Iceland Hotels bætist jafnframt við hótel félagsins á Höfn í Hornafirði, sem áður var rekið undir merkjum Hótel Eddu, en hefur nú verið endurbætt til að uppfylla auknar gæðakröfur í samræmi við önnur hótel Berjaya Iceland Hotels.
Önnur hótel í rekstri Iceland Hotel Collection by Berjaya eru óbreytt:
- Hilton Reykjavík Nordica
- Canopy by Hilton Reykjavik
- Konsúlat Reykjavík Hotel – Curio Collection by Hilton
- Iceland Parliament Hotel – Curio Collection by Hilton (áætluð opnun síðla hausts 2022)
- Alda Hotel Reykjavik
- Hótel Edda Akureyri (sumarhótel)
- Hótel Edda Egilsstöðum (sumarhótel)
Félagið starfrækir áfram sameiginlega aðalskrifstofu í Reykjavík „sem ber m.a. ábyrgð á hámörkun samlegðar ólíkra eininga í rekstri félagsins og samstarfi við erlenda samstarfsaðila, m.a. eigendur félagsins í Kuala Lumpur í Malasíu, samstarfsaðila félagsins um sérleyfissamninga Hilton Worldwide, ásamt umsýsluaðilum að sölu hótelanna sem staðsettir eru ýmist hérlendis eða erlendis“.
Önnur hótel í eigu sama aðila eru starfrækt víða um heim: í Malasíu, Japan, Sri Lanka, Víetnam, á Seychelles eyjum, Filippseyjum og í London, Bretlandi.