Icelandair og IðunnH2 hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Icelandair á allt að 45 þúsund tonnum á ári af innlendu, sjálfbæru flugvélaeldsneyti frá árinu 2028. Í tilkynningu Icelandair segir að sú notkun myndi jafngilda minnkun útblásturs um allt að 10% úr millilandaflugi Icelandair á ársgrundvelli.

„Um er að ræða kolefnishlutlaust rafeldsneyti sem nýtist til íblöndunar á núverandi flugvélaflota, en framboð þess er nú takmarkað á heimvísu. IðunnH2 vinnur að þróun slíkrar vinnslu í Helguvík með það að markmiði að mæta innlendri eftirspurn með íslenskri framleiðslu.“

Framleiðsluaðferðin sem IðunnH2 mun nýta í Helguvík sameinar grænt vetni og endurunnið koldíoxíð. Með endurvinnslu koldíoxíðs helst magn þess í andrúmsloftinu óbreytt en eykst ekki eins og við framleiðslu og bruna jarðefnaeldsneytis. Framleiðsluaðferðin er ekki ný, en hefur hingað til verið notuð í smærri framleiðslueiningum.

Icelandair hefur sett sér markmið um að draga úr kolefnislosun um 50% á hvern tonnkílómetra fyrir árið 2030 miðað við árið 2019 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 í takti við alþjóðleg markmið flugiðnaðarins.

Flugfélagið segist þegar hafa gripið til fjölmargra aðgerða til að vinna að þessum markmiðum, þar á meðal með innleiðingu Boeing 737 Max flugvélanna sem séu sparneytnari og umhverfisvænni en fyrri vélar í flota félagsins.

„Fleiri þættir þurfa þó að raungerast svo flugiðnaðurinn nái settum markmiðum. Sjálfbært flugvélaeldsneyti er þar í lykilhlutverki en nýtt evrópskt regluverk mun innleiða kröfur um stighækkandi hlutfall þess í flugferðum til og frá evrópska efnahagssvæðinu á næstu árum.“

„Með viljayfirlýsingu um samstarf við IðunniH2 viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að styðja við aðila sem vinna að uppbyggingu framleiðslu sjálfbærs flugvélaeldsneytis á Íslandi. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun og höfum þegar farið í miklar fjárfestingar í nýjum flugflota á undanförnum árum sem er sú leið sem í dag skilar mestum árangri í að draga úr losun frá flugi. Það er hins vegar notkun á sjálfbæru eldsneyti sem mun vega hvað þyngst á þessari vegferð á næstu árum í millilandaflugi. Áskorunin í því er að um þessar mundir er framleiðsla ekki nógu mikil í heiminum og þar af leiðandi allt of lítið framboð. Það felast því ótvíræð tækifæri í því að íslensk framleiðsla á sjálfbæru eldsneyti úr innlendri orku verði að veruleika,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Það er ánægjulegt að fá Icelandair til liðs við okkur til að stuðla að innlendri framleiðslu á sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Verkefni okkar í Helguvík leiðir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda, eykur orkuöryggi og hagsæld, og styður við nærsamfélagið í núverandi mynd. Við höfum unnið ötullega síðustu misseri við að draga hagaðila að borðinu til að meta kosti þess að reisa slíka verksmiðju hér og fögnum því að okkar stærsta flugfélag sé tilbúið að stíga fram og styðja við áformin. Það er erfitt að ofmeta hvað djörf skref nú geta skipt sköpum fyrir íslenskt kolefnishlutleysi til framtíðar, en IðunnH2 vill nýta íslenskt hugvit til að breyta okkar langtímastöðu sem innflutningsþjóð á eldsneyti. Þessi viljayfirlýsing er mikilvægt skref í átt að þeirri vegferð,“ segir Auður Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri IðunnarH2.

Auður Nanna Baldvinsdóttir og Jón Steinar Garðarsson Mýrdal frá IðunniH2 ásamt Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, Boga Nils Bogasyni og Ásdísi Ýri Pétursdóttur frá Icelandair.
© Aðsend mynd (AÐSEND)