Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um 4,8% í 161 milljónar króna veltu í dag, mest af félögum Kauphallarinnar, og stendur nú í 1,60 krónum á hlut. Gengi flugfélagsins hefur ekki verið lægra síðan í júlí síðastliðnum. Gengi Play lækkaði sömuleiðis um 1,8% í 36 milljóna veltu og stendur í 13,45 krónum.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% í 2,9 milljarða króna veltu en 18 af 23 félögum aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins. Hlutabréf VÍS og Kviku banka féllu sömuleiðis um meira en 2%.
Mesta veltan var með hlutabréf Nova, eða 552 milljónir króna, sem má rekja til stakra viðskipta með 3,3% hlut í fjarskiptafélaginu í hádeginu í dag. Kaupverðið í viðskiptunum nam 523 milljónum króna. Gengi Nova hækkaði um 1% og stendur nú í 4,2 krónum á hlut.