Eftir lækkanir undanfarna daga opnaði Kauphöllin græn í morgun. Sextán af 23 félögum aðalmarkaðarins hafa hækkað í fyrstu viðskiptum.

Icelandair leiðir hækkanir á aðalmarkaðnum en gengi flugfélagsins hefur hækkað um 4% í yfir 650 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Icelandair stendur nú í 2,04 krónum.

Nova, sem birti ársuppgjör í gær, hefur hækkað um 2,6% í 70 milljóna veltu.

Gengi Nova stendur nú í 4,0 krónum. Auk Icelandair og Nova hafa hlutabréf Arion, Kviku, Brims, Festi, Síldarvinnslunnar og Reita hækkað um meira en 1%.

Gengi Kaldalóns tekur stökk eftir uppgjörið

Kaldalón, sem er skráð á First North-markaðinn, birti ársuppgjör í gærkvöldi en fasteignafélagið hagnaðist um 2,1 milljarð í fyrra. Hlutabréfaverð Kaldalóns hefur hækkað um 7% í 58 milljóna veltu og stendur í 1,63 krónum þegar fréttin er skrifuð.

Þá hefur Play hækkað um 3,6% í tólf milljóna veltu. Í morgun var tilkynnt um að Valentín Lago, fyrrum forstjóri Air Europa, sé að taka sæti í stjórn Play.