Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,4% í 4,3 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Icelandair leiddi lækkanir en gengi flugfélagsins féll um 3,2% í 465 milljóna veltu og stendur nú í 2,0 krónum á hlut.
Auk Icelandair féll gengi Skeljar fjárfestingarfélags og Marels um meira en 2,5% í dag. Hlutabréfaverð Marels stendur nú í 584 krónum.
Sennilega má rekja lækkanir að hluta til fyrirhugaðra verkfalla Eflingar sem taka til vörubifreiðaflutninga og olíudreifingu. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði við mbl.is í dag að viðbúið sé að allt flug hjá Icelandair verði fyrir röskun um helgina og stöðvist um miðja næstu viku vegna verkfallsins sem hefst á morgun.
Fimm félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Sýn hækkaði mest eða um 2,6% í 36 milljóna veltu. Reitir, sem skiluðu ársuppgjöri í gær, hækkuðu næst mest eða um 0,6%.