Úrvalsvísitalan féll um 0,9% í 2,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þréttán félög aðalmarkaðarins voru rauð og átta græn í viðskiptum dagsins.
Icelandair og Alvotech lækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,6% hvort. Gengi Icelandair stendur nú í 1,86 krónum á hlut og Alvotech í 1.735 krónum en hlutabréfaverð beggja félaga hefur hækkað um meira en 15% í ár þrátt fyrir lækkanir dagsins.
Þá lækkuðu hlutabréf Kviku banka, Skeljar og Haga einnig um meira en 2% í dag. Gengi Marels féll um 1,4% og stendur nú í 560 krónum á hlut.
Mesta veltan var með hlutabréf Eimskips sem hækkuðu um 5,7%, mest af félögum Kauphallarinnar, í 828 milljóna viðskiptum. Gengi Eimskips, sem sendi frá sér afkomuviðvörun í gær, stendur nú í 555 krónum og hefur ekki verið hærra frá því í nóvember síðastliðnum.