Icelandair og Emirates undirrituðu samstarfssamning um sammerkt flug á aðalfundi IATA, Alþjóðasamtaka flugfélaga í Dubai. Með samningnum munu flugfélögin geta boðið viðskiptavinum sínum upp á þægilegar tengingar á milli leiðakerfa sinna og þannig aukið úrval tengimöguleika.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að félagið geri ráð fyrir að hægt verði að bóka tengiflug á milli félaganna 1. september næstkomandi.

„Það er spennandi að tilkynna samning við Emirates, stærsta flugfélag Miðausturlanda og sjöunda samstarfsflugfélagið okkar. Okkar stefna er að gera samstarfssamninga við flugfélag sem leggja áherslu á góða þjónustu og spennandi ferðatækifæri. Öflugt leiðakerfi Emirates mun opna nýjar tengingar fyrir viðskiptavini okkar og við hlökkum til að þróa samstarfið áfram,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Félagið segir jafnframt að samningurinn muni auka framboð á tengingum þar sem farþegar geti ferðast á einum farmiða og innritað farangurinn alla leið á lokaáfangastað. Farþegar Icelandair frá Íslandi og Norður-Ameríku geta ferðast í austurátt með leiðakerfi Emirates til Dubai og farþegar Emirates geta ferðast frá fjölda áfangastaða með leiðakerfi Icelandair til Íslands.

Bæði félögin stefna þá að því að þróa og útvíkka samstarfið enn frekar í framtíðinni.

„Það er ánægjulegt að hefja samstarf við Icelandair og bjóða viðskiptavinum okkar aðgang að nýjum og spennandi áfangastöðum utan okkar leiðakerfis. Ísland er mjög vinsæll áfangastaður, sérstaklega hjá þeim sem vilja upplifa fallega náttúru í fríinu sínu. Við erum spennt fyrir þessu nýja samstarfi við Icelandair og sannfærð um að það muni aukast jafnt og þétt og opna þannig enn meiri möguleika fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Adnan Kazim, aðstoðarforstjóri Emirates og framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.