Úrvalsvísitalan lækkaði um eitt prósent í 2,8 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hagar lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,8% í 80 milljóna veltu. Gengi Haga stendur nú í 71 krónu á hlut.

Þá lækkaði hlutabréfaverð Marels um 1,9% og stendur nú í 616 krónum á hlut. Einungis 56 milljóna velta var með bréf félagsins.

Gengi Símans féll um ríflega eitt prósent í dag og stendur nú í 10,7 krónum á hlut. Í gær kom fram í skjölum sem Samkeppniseftirlitið birti að sjóðastýringafyrirtækið Ardian hafi í sáttaviðræðum við eftirlitið lagt til að heildsölusamningur á milli Mílu og Símans verði 17 ár í stað 20 ára að lokinni sölu Símans á Mílu til Ardian. Hlutabréfaverð Símans féll alls um 11% í vikunni.

Flugfélögin tvö í Kauphöllinni hækkuðu þó í viðskiptum dagsins. Icelandair tilkynnti eftir lokun Kauphallarinnar í gær að það hefði hagnast um hálfan milljarð á öðrum ársfjórðungi. Gengi Icelandair fór upp í 1,9 krónur þegar mest lét í fyrstu viðskiptum dagsins en endaði daginn í 1,84 krónum, eða 3% hærra en við lokun markaða í gær. Þá hækkaði Play einnig um 3,4% í 314 milljóna veltu. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 16,75 krónur á hlut.