Úrvalsvísitalan féll um 0,6% í 3,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag en um er að ræða fimmta daginn í röð sem vísitalan lækkar.

Mesta veltan, eða um 950 milljónir, var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 1%. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 122,6 krónum á hlut eftir 3,5% lækkun í vikunni. Gengi Kviku hefur einni lækkað um 3,3% í vikunni og stendur nú í 19,3 krónum.

Eimskip og Hagar hækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar, bæði um meira en 2%.

Hlutabréf VÍS og Icelandair lækkuðu um 2%, mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi VÍS Stendur nú í 19,2 krónum og hlutabréfaverð Icelandair í 1,96 krónum.

Á First North-markaðnum hélt gengi Play áfram að lækka. Hlutabréfaverð flugfélagsins stóð í 9,7 krónum eftir 2% lækkun í 50 milljóna veltu. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að sjóður í stýringu hjá evrópska sjóðastýringafyrirtækinu Quaero Capital væri komið með 1,2% hlut í Play.