Icelandair gekk í dag frá starfslokum við 82 starfsmenn, að því er segir í fréttatilkynningu. Um er að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins.

Þá hefur flugfélagið tekið afkomuspá sína fyrir árið 2024, sem félagið birti í byrjun apríl, úr gildi að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Icelandair gekk í dag frá starfslokum við 82 starfsmenn, að því er segir í fréttatilkynningu. Um er að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins.

Þá hefur flugfélagið tekið afkomuspá sína fyrir árið 2024, sem félagið birti í byrjun apríl, úr gildi að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Aðaláhersla á að auka skilvirkni eftir uppbyggingu síðustu ára

Í morgun var greint frá hópuppsögn hjá Icelandair en ekki fékkst staðfest umfang hennar. Í tilkynningu sem félagið sendi rétt fyrir fjögurleytið í dag kemur fram að félagið hafi gengið frá starfslokum við 82 starfsmenn .

Í tilkynningunni bendir Icelandair á að félagið hafi ráðið og um 2.500 starfsmenn á árunum 2021-2023 samhliða því að flugfélagið tók fjölda flugvéla aftur í rekstur auk þess að innleiða 13 nýjar flugvélar í flotann.

Eftir að góður árangur hafi náðst við að byggja félagið hratt upp eftir heimsfaraldurinn leggi Icelandair nú aðaláhersla á að auka skilvirkni í rekstrinum í kjölfar þessa mikla uppbyggingartímabils. Hópuppsögnin sé ein af fjölmörgum hagræðingaraðgerðum til að styrkja samkeppnishæfni félagsins enn frekar.

„Það er leitt að sjá á eftir góðu fólki og um erfiða ákvörðun er að ræða. Uppbygging félagsins eftir heimsfaraldurinn var mikið átaksverkefni sem stór hópur fólks kom að en nú hefur þessi hraði vöxtur náð ákveðnu jafnvægi. Auk þess standa fyrirtæki á Íslandi frammi fyrir mjög krefjandi rekstrarumhverfi sem hefur einkennst af hárri verðbólgu og mikilli hækkun launakostnaðar, umfram það sem gerist í samkeppnislöndum okka‏‏r,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Jafnframt ríkir óvissa um hvernig aðstæður á mörkuðum þróast, ekki síst vegna endurtekinna eldgosa á Reykjanesi. Það er því nauðsynlegt að velta við öllum steinum til að draga úr kostnaði og auka tekjur með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni og bæta afkomu félagsins til framtíðar. Ég vil þakka öllu því góða fólki sem nú lætur af störfum fyrir þeirra mikilvæga framlag til Icelandair og óska þeim alls hins besta.“

Kippa afkomuspánni úr gildi

Í byrjun apríl síðastliðnum gaf Icelandair út afkomuspá fyrir árið 2024, sem meðal annars gerði ráð fyrir að EBIT hlutfall af tekjum myndi vera á bilinu 2-4%. Flugfélagið hefur nú tekið afkomuspána úr gildi.

„Óvissa ríkir um hvernig aðstæður á mörkuðum þróast út árið, ekki síst vegna endurtekinna eldgosa á Reykjanesi, og því er ekki gefin út ný afkomuspá,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

„Þegar eftirspurn eftir flugferðum til Íslands hefur minnkað hefur Icelandair nýtt sveigjanleika leiðakerfisins og lagt meiri áherslu á markaðinn yfir hafið, en þar hafa fargjöld gefið nokkuð eftir.“

Þar kemur einnig fram að félagið vinnu nú að fjölda aðgerða til auka skilvirkni í rekstri félagsins. Icelandair hafi náð árangri í lækkun einingakostnaðar, líkt og kom fram í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs, og muni halda áfram á þeirri vegferð.

„Leiguflugstarfsemi félagsins gengur vel og viðsnúningur hefur orðið í afkomu af fraktstarfsemi eftir erfitt ár í fyrra. Fjárhagsstaða Icelandair er sterk og fyrirtækið er í góðri stöðu til þess að takast á við sveiflur sem fylgja flugrekstri.“