Icelandair hagnaðist um 1,5 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 800 milljóna króna tap árið áður. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem Icelandair skilar hagnaði eftir skatta á ársgrundvelli. Flugfélagið birti ársuppgjör í kvöld.

Icelandair hagnaðist um 1,5 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 800 milljóna króna tap árið áður. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem Icelandair skilar hagnaði eftir skatta á ársgrundvelli. Flugfélagið birti ársuppgjör í kvöld.

„Það er mikilvægur áfangi að skila hagnaði eftir skatta fyrir árið í heild eftir krefjandi undanfarin ár,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. „Tekjumyndun var mjög sterk á árinu og okkur gekk vel að bregðast við mikilli eftirspurn á öllum okkar mörkuðum, sér í lagi frá Norður Ameríku til Íslands.“

Tekjur Icelandair jukust um 20% milli ára og námu 1,5 milljörðum dala í fyrra eða sem nemur um 210 milljörðum króna. Fjöldi farþega Icelandair á síðasta ári voru 4,3 milljónir talsins sem er 17% aukning frá fyrra ári. Sætanýting ársins var 81,5% sem er aukning um tæp 2 prósentustig milli ára.

EBIT-hagnaður flugfélagsins nam 21 milljón dala, eða sem nemur um 2,9 milljörðum króna, sem er um 11% aukning frá fyrra ári.

„Undirliggjandi rekstur félagsins var sterkur á árinu, sérstaklega ef tekið er tillit til áhrifa utanaðkomandi áskorana og neikvæðrar afkomu af fraktstarfsemi sem brugðist hefur verið við.“

Icelandair segir lausafjárstöðu félagsins hafa verið sterka í árslok eða um 44 milljarðar króna.

Eignir flugfélagsins voru bókfærðar á 1,5 milljarða dala, eða um 208 milljarða króna, í árslok 2023 sem er 8% aukning á milli ára. Eigið fé Icelandair var um 288 milljónir dala eða um 39,3 milljarðar króna. Til samanburðar nemur markaðsvirði félagsins nú 59,6 milljörðum króna.

Afkoma síðasta ársfjórðungs undir væntingum

Bogi Nils segir hins vegar að afkoma fjórða ársfjórðungs hafi verið undir væntingum og haft neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. EBIT-afkoma á fjórðungnum var neikvæð um 7 milljarða króna.

„Eftir einn besta þriðja ársfjórðung í sögu félagsins byrjaði fjórði ársfjórðungur vel. Hins vegar þegar jarðhræringarnar á Reykjanesi hófust á ný snemma í nóvember með tilheyrandi umfjöllun í erlendum fjölmiðlum, fór eftirspurn að veikjast og þar með tekjumyndun,“ segir Bogi Nils.

„Við þetta bættust áhrif verkfalla flugumferðarstjóra og svo eldgos í desember. Jafnframt hefur mikil framboðsaukning verið á lykilmörkuðum sem setur óhjákvæmilega pressu á einingatekjur.“

Í Kauphallartilkynningu Icelandair kemur fram að framboðsaukning félagsins í fjórðungnum hafi verið 13% á milli ára og fjölgun farþega um 12%.

Markaðurinn að taka við sér

Bogi Nils segir að framangreindar aðstæður muni fylgja félaginu inn í fyrsta ársfjórðung og gera megi ráð fyrir að reksturinn á fyrri hluta ársins verði krefjandi. Hann segist þó telja spennandi tíma vera fram undan.

„Útlitið er gott fyrir næsta sumar. Markaðurinn til Íslands er að taka við sér á ný eftir atburði síðustu vikna enda Ísland eftirsóttur áfangastaður. Þá erum við að sjá hærra hlutfall bókana yfir Atlantshafið en áður.“

Flugáætlun Icelandair á árinu 2024 verður um 11% stærri en á árinu 2023 með 57 áfangastöðum, þar af þremur nýjum – Pittsburgh, Halifax og Vágar í Færeyjum.