Icelandair tapaði 44 milljónum dala, eða sem nemur 6,1 milljarði króna, á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 59,4 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra.

Flugfélagið segir í tilkynningu að afkomubati hafi verið í öllum rekstrareiningum milli ára og að afkoman sé í takti við væntingar stjórnenda.

Heildartekjur Icelandair jukust um 11% og námu 39,6 milljörðum króna. Þar af voru farþegatekjur flugfélagsins 29,6 milljarðar króna og jukust um 8% frá fyrra ári.

Flugframboð jókst félagsins um 7% í farþegaleiðakerfinu og fjöldi farþega jókst um 9% milli ára

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var betri í öllum rekstrareiningum. Það er ánægjulegt að sjá einingakostnað halda áfram að lækka þrátt fyrir verðbólgu og kostnaðarhækkanir í takt við áherslu okkar á að bæta rekstur og afkomu félagsins,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Lausafjárstaða Icelandair í lok fyrsta ársfjórðungs nam 67,7 milljörðum króna og hefur aldrei verið meiri í lok fyrsta fjórðungs.

Treysta sér ekki til að staðfesta afkomuspána

Icelandair gaf út afkomuspá fyrir árið 2025 þann 30. janúar síðastliðinn en hún gerði ráð fyrir að EBIT-afkoma fyrir árið yrði jákvæð um 5,5-8 milljarða króna. Icelandair segist nú þremur mánuðum síðar ekki geta staðfesta afkomuspána fyrir árið í heild á þessum tímapunkti.

„Frá því að afkomuspáin var gefin út hefur óvissa á alþjóðamörkuðum, hins vegar, aukist og valdið ófyrirsjáanleika í ferðaáætlunum fólks til lengri tíma, sem endurspeglast í hægara bókunarflæði í haust og næsta vetur. Á sama tíma hefur íslenska krónan styrkst um 10% á móti Bandaríkjadal sem hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra útflutningsgreina.

Í ljósi aukinnar óvissu er varðar eftirspurn næsta haust og vetur er erfitt að spá fyrir um afkomu fjórða ársfjórðungs,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Félagið segir þó að afkoma fyrsta ársfjórðungs hafi verið í takt við væntingar stjórnenda. Bókunarstaðan á næstu mánuðum á mörkuðunum til og frá Íslandi sé betri en á sama tíma í fyrra og Icelandair geri ráð fyrir afkomubata í öðrum og þriðja ársfjórðungi milli ára.

Ráðist í hagræðingaraðgerðir upp á 5 milljarða á ársgrundvelli

Bogi segir félagið hafa í lok fyrsta ársfjórðungs ráðist í hagræðingaraðgerðir sem munu skila yfir 40 milljónum dala, eða um 5 milljörðum króna, á ársgrundvelli. Flugfélagið gerir ráð fyrir að fjárhagslegur ávinningur verði samtals 70 milljónir dala á ársgrundvelli í lok árs 2025.

„Við munum ekki stoppa þar og eru fjölmörg frekari umbótaverkefni í pípunum,“ segir Bogi.