Icelandair tapaði 5,8 milljónum dala árið 2022, eða sem nemur tæplega 818 milljónum króna miðað við núverandi gengi. Afkoma félagsins batnaði þó verulega á milli ára og hefur ekki verið betri frá árinu 2017 þegar það skilaði síðast hagnaði. Icelandair segist í afkomutilkynningu gera ráð fyrir að EBIT hlutfall verði 4-6% fyrir árið 2023.
Rekstrartekjur Icelandir meira en tvöfölduðust á milli ára og námu 1.265 milljónum dala, eða um 178 milljarða króna.
Rekstrarhagnaður Icelandair (EBIT) 19 milljónum dala, eða um 2,6 milljörðum króna, á síðasta ári. EBIT-hagnaður félagsins batnaði um 20,9 milljarða króna frá fyrra ári.
Veðurfar í desember kostaði Icelandair milljarð
Icelandir segir að afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi hafi verið sú besta frá árinu 2015. Icelandair tapaði 17,7 milljónum dala, eða um 2,5 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, á fjórða ársfjórðungi.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að slæmt veðurfar í desember hafi haft mikil áhrif á starfsemina. Áhrifin af þessum röskunum eru metin á um einn milljarð króna „sem að langmestu leyti má rekja til lokunar Reykjanesbrautarinnar á meðan Keflavíkurflugvöllur var opinn“.
Flugframboð Icelandair á fjórða ársfjórðungi var 95% af framboðinu á sama tímabili árið 2019. Icelandair segir að metsala hafi verið í janúar 2023 og góðar horfur séu á öllum mörkuðum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Árið 2022 markar mikinn viðsnúning í rekstri Icelandair. Sterk tekjumyndum með met farþegatekjum á seinni hluta ársins og stórbætt EBIT hlutfall sýnir að viðskiptalíkan félagsins hefur enn og aftur sannað gildi sitt. Við höfum náð vopnum okkar og höldum ótrauð áfram, sterkari en nokkru sinni fyrr, með stærstu flugáætlun í sögu félagsins á þessu ári þegar kemur að tíðni og fjölda áfangastaða.
Stefna okkar og aðgerðir á meðan á faraldrinum stóð gerðu það að verkum að við vorum tilbúin að bregðast við og auka flugframboð hratt til að mæta mikilli eftirspurn. Við tvöfölduðum flugáætlun félagsins á milli ára, fjölguðum áfangastöðum í 51 og fluttum 3,7 milljónir farþega á árinu,“ segir Bogi.
„Það er ljóst að rekstrarumhverfið verður áfram krefjandi með verðbólguþrýstingi og hækkun launakostnaðar. Við erum þó sannfærð um að eftirspurn verði áfram mikil eftir ferðalögum og að mikil tækifæri séu fyrir Ísland sem áfangastað eins og við sjáum þegar í sterku bókunarflæði fyrir næstu misseri.“