Icelandair hefur gert samning við portúgalska flugrekandann Euro Atlantic um leigu á Boeing 767-300 flugvél sem nýtt verður í millilandaflugi Icelandair næstu vikur. Vélin, sem kom til landsins í gær, verður fyrst og fremst nýtt í Evrópuflug og er fyrsta flug hennar í leiðakerfi Icelandair kl. 7:40 í dag til Munchen. Áætlað er að vélin verði í rekstri Icelandair í um það bil tvær vikur.
„Flug og ferðaþjónusta hafa farið hratt af stað eftir Covid faraldurinn og eftirspurn hefur margfaldast. Á sama tíma hefur uppbygging innviða til að mæta þessari eftirspurn tekið tíma. Þetta hefur meðal annars komið fram í töfum í afgreiðslu á flugvöllum erlendis vegna manneklu sem hefur valdið talsverðum röskunum á flugi. Þá hefur truflun í aðföngum í kjölfar faraldursins valdið töfum á viðhaldsverkefnum,“ segir í tilkynningu Icelandair.
Flugfélagið tekur fram að vélin sé ekki í staðlaðri uppsetningu Icelandair enda um skammtímaleigu að ræða sem komi upp með skömmum fyrirvara. Leitast verður eftir að lágmarka áhrif á farþega og „verður þessi vél einvörðungu notuð þegar nauðsynlegt er til að halda áætlun“. Áhöfn verður skipuð að hluta til starfsfólki Icelandair og starfsfólki Euro Atlantic að hluta.
Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair:
„Við erum með metnaðarfulla flugáætlun í sumar, mikla tíðni og fjölbreytta brottfarartíma innan dagsins til að mæta mikilli eftirspurn eftir flugi og ferðalögum í sumar. Þetta umfang hefur einnig gert okkur kleift að bregðast við þeim röskunum sem hafa orðið á flugi vegna aðstæðna sem hafa skapast eftir faraldurinn og tryggja að farþegar okkar komist sem fyrst á leiðarenda. Hins vegar, þar sem allir innviðir eru þandir til hins ítrasta og tafir hafa orðið á viðhaldi flugvéla, teljum við nauðsynlegt að búa okkur til enn meiri sveigjanleika þegar kemur að flotanum næstu vikurnar. Þetta er mikilvægt til að geta haldið uppi yfirgripsmikilli flugáætlun okkar og til að geta brugðist við ófyrirséðum aðstæðum.“