Icelandair skrifaði í gær undir nýja viljayfirlýsingu við Heart Aerospace í tengslum við rafmagnsflugvél sem fyrirtækið vinnur að. Þá verður Icelandair hluti ráðgjafanefndar sem sænski flugvélaframleiðandinn hefur sett á fót. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Flugvélin sem Heart Aerospace vinnur nú að er 30 sæta tvinnvél, ES-30, sem mun nýtast vel í innanlandsflug á Íslandi. Icelandair og Heart Aerospace höfðu áður skrifað undir viljayfirlýsingu um 19 sæta rafmagnsflugvél, ES-19 en ES-30 mun koma í stað hennar.
ES-30 er 30 sæta farþegavél búin hljóðlátum rafmagnshreyflum sem geta einnig gengið fyrir sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Á skemmri flugleiðum gæti vélin gengið eingöngu fyrir rafmagni og þar með gert kolefnislaust innanlandsflug að veruleika. Á lengri flugleiðum gæti vélin gengið fyrir blöndu rafmagns og sjálfbærs flugvélaeldsneytis. Drægni vélarinnar verður um 200 km með 30 farþega á rafmagni eingöngu, 400 km með blöndu af rafmagni og sjálfbæru flugvélaeldsneyti, en allt að 800 km með 25 farþega. Þannig gæti flugvélin nýst á öllum flugleiðum innanlands og dregið umtalsvert úr kolefnislosun. Heart Aerospace gerir ráð fyrir að flugvélin verði komin í notkun árið 2028.
Auk fulltrúa Icelandair eru fulltrúar í ráðgjafanefndinni frá Aerus, Air Canada, Air New Zealand, Braathens Regional Airlines, CDB Aviation, Cebu Pacific, Christchurch flugvelli, DAT, London City flugvelli, Mesa Air Group, Republic Airways, Rockton, SAS, Sevenair, Sounds Air, Swedavia, Toki Air, United Airlines, Vmo Aircraft Leasing og Wellington flugvelli. Ráðgjafanefndinni er ætlað að tryggja að flugvélin henti þörfum notenda sem best. Þannig er stuðlað að því að orkuskipti flugsamgangna geti hafist sem fyrst.
Anders Forslund, stofnandi og forstjóri Heart Aerospace:
„Markmið okkar er að rafvæða flug á styttri flugleiðum, en það gerum við ekki ein. Það er sameiginlegt verk margra aðila að gera flug kolefnislaust. Með samstarfinu getum við haft áhrif á alla virðiskeðjuna, allt frá því að framleiða umhverfisvænni flugvélar, til þess að gera flugvelli aðgengilegri fyrir umhverfisvænar vélar. Þannig gerum við flug þægilegra, ódýrara og sjálfbærara fyrir almenning.“
Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair:
„Það er okkur sönn ánægja að útvíkka samstarfið við Heart Aerospace. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að minnka losun í starfsemi okkar og einn þáttur í því er að stuðla að framþróun nýrrar tækni. Vegna stuttra flugleiða og góðs aðgangs að umhverfisvænni orku er Ísland í einstakri stöðu til þess að gera innanlandsflug kolefnislaust. Heart Aerospace stefnir á að fyrsta flugvélin verði komin í notkun á þessum áratug. Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur hjá Icelandair að taka þátt í þróuninni og greiða þannig leiðina til orkuskipta í flugi.“