Icelandair mun flj'uga til tveggja nýrra áfangastaða í millilandaflugi sumarið 2023, Prag og Barcelona. Flogið verður í morgunflugi, sem býður upp á góðar tengingar við flug félagsins til Norður-Ameríku. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið flýgur áætlunarflug til Prag. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Flogið verður fjórum sinnum í viku til Prag, þriðjudag, fimmtudag, föstudag og sunnudag. Fyrsta flug er 1. júní 2023 og flogið verður út október 2023. Boðið verður upp á tvö til þrjú flug í viku til Barcelona frá 1. apríl 2023 og út október. Icelandair hefur áður flogið til Barcelona í síðdegisflugi en í fréttatilkynningu er bent á að með morgunflugi opnist nýir möguleikar á tengiflugi milli Norður-Ameríku og Barcelona.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er spennandi að bæta tveimur frábærum borgum við okkar öflugu sumaráætlun. Prag og Barcelona hafa upp á margt að bjóða meðal annars hvað varðar menningu, listir, sögu og matargerð. Við sjáum mikil tækifæri í að bjóða morgunflug til borganna tveggja sem tengist vel inn í Norður-Ameríku flugið okkar. Sem stendur eru fáar flugtengingar frá Prag til Bandaríkjanna og Kanada og munum við því stórbæta tengingar á milli þessara markaða auk þess að bjóða upp á þægilega brottfaratíma milli Íslands og Prag.“