Hlutabréf Icelandair hafa hækkað um 5% í verði frá opnun Kauphallarinnar í dag en 240 milljóna króna viðskipti hafa verið með bréf félagsins í dag. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,67 krónum og hefur ekki verið hærra síðan um miðjan maí síðastliðinn. Á First North-markaðnum hefur gengi Play hækkað um 0,6% í 20 milljóna veltu og stendur nú í 16,2 krónum.
Hlutabréf fjögurra stærstu flugfélaga Bandaríkjanna hækkuðu um 4%-10% í gær eftir að American Airlines sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Hins vegar hefur hlutabréfaverð stærstu flugfélaga Evrópu lækkað nokkuð í viðskiptum dagsins.
Marel nálgast 700 krónur aftur
Íslenska úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,9% í 1,9 milljarða veltu á aðalmarkaðnum. Marel hefur hækkað næst mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 1,5% en gengi félagsins nálgast nú aftur 700 krónur á hlut.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hefur lækkað um tæplega eitt prósent í 47 milljóna veltu og stendur í 104 krónum en gengi félagsins hefur engu að síður hækkað töluvert í vikunni.