Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að búið sé að stofna falska reikninga á samfélagsmiðlum í nafni Icelandair. Vandamálið er ekki nýtt af nálinni en flugfélagið hefur áður fyrr sent út viðvörun þess efnis.

Fréttastofan BBC greindi frá því í morgun að búið sé að falsa reikninga á samfélagsmiðlinum X fyrir öll helstu flugfélög í Bretlandi.

Reikningarnir eru notaðir til að svara fyrirspurnum og kvörtunum viðskiptavina sem gera sér oft ekki grein fyrir því að um falsaðan reikning sé að ræða. Svikararnir svara þá fyrirspurnum og biðja oft um persónuupplýsingar eða vægt gjald til að leysa ákveðið mál.

„Við hjá Icelandair höfum tekið eftir því að stofnaðir hafa verið falskir reikningar í okkar nafni á samfélagsmiðlum. Við fylgjumst með og tilkynnum þessa reikninga til X og annarra samfélagsmiðla um leið og við sjáum þá.“

Guðni tekur þó í sama streng og erlendu flugfélögin og segir að það gæti tekið tíma áður en lokað er á reikningana. Flugfélagið bendir því viðskiptavinum á að sýna árvekni þegar þeim berast samskipti á samfélagsmiðlum.

Icelandair hefur fest tíst efst á reikning félagsins sem varar við fölsuðum reikningum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Icelandair notar aðeins þær samskiptaleiðir sem tilgreindar eru í bókun til þess að hafa bein samskipti við viðskiptavini. Annað sem við höfum gert á samfélagsmiðlinum X er til dæmis að festa tíst efst á reikningnum okkar þar sem við vörum við þessu.“