Yfirskrift Iðnþings í ár er Ísland á stóra sviðinu og verður einblínt á áskoranir, tækifæri og samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á alþjóðamarkaði á tímum tæknibyltinga og tollastríða. Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI), segir þetta viðfangsefni rökrétt framhald af því sem hefur verið í brennidepli á Iðnþingum síðustu ár.

„Við teljum að Ísland verði að taka sér skýra og sterka stöðu meðal þjóða á þeim óvissutímum sem nú ríkja sem byggir á styrkleikum okkar, sérstöðu, reynslu og þekkingu. Alþjóðlegt efnahagslíf glímir við mikla spennu um þessar mundir sem hefur bæði bein og óbein áhrif á efnahag Íslands og möguleika okkar til vaxtar. Sömuleiðis þurfum við að glíma við heimatilbúnar áskoranir sem mikilvægt er að draga úr með samhentu átaki stjórnvalda og atvinnulífs svo blómlegt atvinnustarfsemi fái áfram að dafna landið um kring, þjóðinni allri til heilla. Við munum með góðum hópi þátttakenda meðal annars velta fyrir okkur svokölluðum viðnámsþrótti í ljósi óvissuástands í heiminum, hvar við stöndum í gervigreindarkapphlaupinu, varpa ljósi á stöðu þeirra útflutningsgreina sem tilheyra íslenskum iðnaði og fá dæmisögur frá félagsmönnum okkar um helstu áskoranir þeirra um þessar mundir í rekstri fyrirtækja, svo fátt eitt sé nefnt. Það ætti því vonandi enginn að vera svikinn af því að mæta á Iðnþingið.“

Heilt yfir hafi íslenskur iðnaður aldrei verið í sterkari stöðu en einmitt nú. „Vöxtur og uppgangur hugverkaiðnaðar undanfarin ár er undraverður, hvernig sem á það er litið. Engu að síður er hann ekki algjörlega ófyrirséður því SI hafa um alllanga hríð bent á tækni- og hugverkagreinar sem stærstu vaxtartækifæri framtíðar hér á landi. Það gleður mig geysilega mikið að sjá þennan vöxt raungerast hratt og örugglega – og íslenskur hugverkaiðnaður á enn mikið inni ef áfram verður rétt á málum haldið.“

Árni segir að raunar gæti þessi fjórða stoð útflutnings hæglega orðið sú stærsta áður en þessi áratugur rennur skeið sitt á enda. „Flóra öflugra fyrirtækja í þessum geira er orðin afar fjölbreytt. Við hlökkum til að styðja áfram við vöxt og viðgang þeirra og sömuleiðis nýrra fyrirtækja sem eru að spretta upp sem afsprengi metnaðarfullra hugmynda íslenskra frumkvöðla.“

Í samanburði við helstu viðskiptalönd telur Árni íslenskan iðnað geta borið höfuðið hátt hvað varðar árangur og þróun, þrátt fyrir margvíslegar áskoranir á liðnum árum. „Við höfum á að skipa afburða frumkvöðlum og fyrirtækjum sem jafnvel eru í fararbroddi á heimsvísu á sínum mörkuðum. Vaxtartækifærin eru óþrjótandi, ef okkur sýnist svo.“

Verðbólga, háir vextir og orkuskortur

Hann segir að líkt og fyrir aðrar undirstöðuatvinnugreinar liggi helstu áskoranirnar íslensks iðnaðar í háum vöxtum og verðbólgu sem hafi bein áhrif á fjárfestingar og rekstrarkostnað fyrirtækja. Þá standi orkuskortur iðnaði verulega fyrir þrifum sem endurspeglist í ört hækkandi raforkuverði, sem um leið sé bein afleiðing orkuskorts.

„Þessi staða hefur mikil áhrif á rekstrarkostnað og yfir höfuð samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Það að ekki sé til orka fyrir ný verkefni og tækifæri á sviði iðnaðar er grafalvarlegt mál. Innviðina okkar þarf almennt að styrkja. Hár launakostnaður er sömuleiðis viðfangsefni atvinnurekenda um land allt og tækifæri til hagræðingar virðast af skornum skammti, ekki síst vegna strangra samkeppnisreglna á litlum markaði. Eins höfum við nefnt skort á tæknimenntuðu vinnuafli sem áskorun til framtíðar og sömuleiðis það starfsumhverfi sem okkur er ætlað að starfa og blómstra í, sem einkennist af háum sköttum, íþyngjandi gjöldum og flóknu regluverki. Þá er rétt að bæta því við að sú óvissa sem nú ríkir í alþjóðahagkerfinu og mögulegt tollastríð milli stórveldanna er veruleg áskorun fyrir okkar útflutningsdrifna hagkerfi.“

Þrátt fyrir fyrrnefndar áskoranir séu vaxtartækifærin víða, ekki síst innan hugverkaiðnaðar. „Við megum ekki vera feimin við að hugsa stórt. Við erum að leggja grunninn að nýjum atvinnugreinum og íslensk fyrirtæki eru stöðugt að hagnýta hugvitið til að ná eftirtektarverðum árangri. Frumkvöðlarnir eru búnir að ryðja skaflinn og við erum í óðaönn að koma á laggirnar nýjum fyrirtækjum sem sum hver munu verða alþjóðleg stórfyrirtæki. Önnur munu skapa ný störf og þekkingu sem ekki hefur áður verið til á Íslandi.“

Til að svo megi verða þurfi orku, starfsumhverfi og regluverk sem hvetji í stað þess að letja og tefja, sterka innviði landið um kring og fjárfestingaumhverfi sem trúi á íslenskt atvinnulíf og laðar einnig til sín erlenda fjárfestingu. „Ekki síst þurfum við menntakerfi sem horfir fram á veginn, skilur framtíðina og gerir ungu fólki kleift að blómstra, byggt á hæfileikum hvers og eins. Gangi þetta allt eftir munu tækifærin verða gripin eitt af öðru og okkur mun áfram farnast vel,“ segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing sem fer fram síðar í dag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.