Árið 1922 keyptu þeir Markús Ívarsson og Bjarni Þorsteinsson smiðju Bjarnhéðins Jónssonar og stofnuðu saman Vélsmiðjuna Héðin. Fyrsta húsnæði fyrirtækisins var í Aðalstræti 6, þar sem Morgunblaðshöllin var síðar byggð.

Markús hafði stundað járnsmíði á Eyrarbakka og vélfræði við Stýrimannaskólann og Bjarni hafði þá stundað vélverkfræðinám í Danmörku.

Um langt skeið hafði íslenskur sjávarútvegur verið háður erlendum verkstæðum og þurfti að sækja nánast allt sem þurfti til erlendra aðila. Fyrirtæki þeirra Markúsar og Bjarna lagði hins vegar áherslu á að þjónusta sjávarútveginn, vélvæðingu skipaflotans og tækja fyrir fiskiðnaðinn.

Héðinn var einnig um árabil umboðsaðili Rolls Royce Marine-vélbúnaðar í skip og var eina viðurkennda verkstæðið sem Rolls Royce Marine rak ekki sjálft. Árið 2019 rann það fyrirtæki hins vegar inn í skipadeild norska fyrirtækisins Kongsberg, sem Héðinn er nú umboðsaðili fyrir

Eðvarð Ingi Björgvinsson, framkvæmdastjóri Héðins, segir að fyrirtækið hafi byrjað sem lítil járnsmiðja niðri í bæ en stækkaði ört eftir því sem árin liðu. Í millitíðinni varð Járnsteypan einnig til sem þýddi að fyrirtækið sá líka um að steypa stál.

„Svo eru nokkur félög, sem voru áður fyrr deildir innan fyrirtækisins, búin að vaxa út og eru orðin eigin félög. Þá má nefna Danfoss, Garðastál og Héðin Schindler, sem var áður fyrr lyftuhlutinn hjá Héðni.“

Verkefnunum fjölgar

Sjávarútvegurinn hefur alltaf verið stór hluti af rekstri fyrirtækisins en undanfarin tvö ár hefur fyrirtækið tekið að sér nokkur stór verkefni fyrir orkugeirann og stóriðju. Héðinn hefur til að mynda verið að leggja lagnir við Hverahlíð fyrir Orku náttúrunnar.

„Flestöll verkefni okkar eru sérhæfð verkefni. Við erum til dæmis ekki í fjöldaframleiðslu, heldur erum við aðallega í stórum þjónustuverkefnum og verkefnum sem tengjast fiskimjölsverksmiðjum. Öll verkefni sem þarfnast sérþekkingar og flækjustigið er mikið, þar komum við sterk inn.“

Starfsmenn Héðins eru nú 142 talsins, sem er töluverð aukning milli ára en starfsmenn félagsins voru 115 í fyrra. Á hápunkti fyrirtækisins, í kringum 1939- 1942, störfuðu rúmlega 450 starfsmenn.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.