Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins um hugverkaiðnaðinn segir að hækkun á skattahvötum hafi leyst krafta geirans úr læðingi. Á síðasta ári hafi 93% af framlögum ríkisins vegna rannsóknarog þróunarkostnaðar runnið til iðnfyrirtækja sem endurspegli þá staðreynd að nýsköpun eigi sér fyrst og fremst stað í iðnaði þó afrakstur nýsköpunar sé hagnýttur í flestöllum atvinnugreinum og sviðum samfélagsins.
Árið 2020 samþykkti Alþingi að hækka endurgreiðsluhlutfall rannsóknar- og þróunarkostnaðar úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Að auki hækkaði þak endurgreiðslu úr 600 milljónum í 1,1 milljarð króna og endurgreiðsluhlutfall til stærri fyrirtækja var hækkað upp í 25%. Upphaflega var þetta sett fram sem tímabundin aðgerð stjórnvalda vegna heimsfaraldursins en hefur síðan verið framlengd.
„Eðlilega bera fyrirtæki í iðnaði uppi nýsköpun, enda er nýsköpun í raun framþróun sem á sér stað í iðnaði sem hagnýtist svo á öðrum sviðum. Þannig hefur samspil iðnaðar og annarra greina verið gott og virðisaukandi í gegnum tíðina. Til dæmis er í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, orkuframleiðslu og fleiri greinum löngu þekkt að iðnaðurinn skapi virðisaukandi lausnir sem auka verðmætasköpun innan atvinnugreinanna,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Mikilvægt að skapa fyrirsjáanleika
Sigurður segir SI hafa talað fyrir því og lagt ríka áherslu á að skattahvatar vegna rannsókna og þróunar verði festir varanlega í sessi af stjórnvöldum, þar sem það geri fyrirtækjunum kleift að gera áætlanir langt fram í tímann. Mikilvægt sé að skapa fyrirsjáanleika um þetta mikilvæga hvatakerfi.
„Þetta myndi hafa mjög jákvæð áhrif og stuðla að auknum fjárfestingum fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Skattahvatarnir hafa gefið frábæra raun og líklega munu enn meiri kraftar losna úr læðingi ef þeir verða gerðir varanlegir. Við höfum átt góð samtöl við stjórnvöld um þetta málefni og erum bjartsýn á að skattahvatarnir verði gerðir varanlegir,“ segir hann og bendir á að ráðherrar og þingmenn allra flokka hafi veitt vexti hugverkaiðnaðar athygli, bent á framtíðartækifæri atvinnugreinarinnar og beitt sér í þágu aukinna hvata.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild sinni hér.