Iðnver hefur gert samning við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum (VSV) um sölu og þjónustu á vélasamstæðum frá Huber Technology. Samkomulagið felur í sér hreinsun á öllu frávatni frá uppsjávarhúsi, hvítfiskvinnslu og loðnubræðslu félagsins.

Í tilkynningu segir að markmiðið með hreinsuninni sé að auka verðmætasköpun hjá VSV en með því að bæta frárennslisbúnað er hægt að nýta betur auðlindir félagsins. Með vélbúnaði frá Huber verður hægt að ná sem mestu af próteini úr frávatninu og endurnýta það í bræðslunni.

Um verulegt magn er að ræða sem verður hægt að gera verðmæti úr sem annars færu til spillis. Nútímakrafa er að fyrirtæki fjárfesti í aukinni sjálfbærni í sínum rekstri sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun að sögn Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Iðnvers.

„Það er afar ánægjulegt að ná þessum stóra samningi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum sem er leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi. VSV hefur ávallt lagt mikla áherslu á gæði afurða sinna sem eru seldar á mörkuðum víða um heim,“ segir Pétur.

Iðnver gerði nýverið samning við þýska fyrirtækið Huber Technology um að gerast umboðsaðili þess á Íslandi. Huber sérhæfir sig í nýsköpun og tækninýjungum fyrir skólp og iðnaðarskólp en þetta er í fyrsta skipti sem vörur fyrirtækisins eru til sölu á Íslandi.

„Við finnum strax fyrir miklum áhuga og eftirspurn frá íslenskum fyrirtækjum á vörum frá Huber. Það kemur raunar ekki á óvart enda er þetta byltingarkenndur tæknibúnaður og vörur sem fyrirtækið er að bjóða upp á í tengslum við skólp og allt sem því viðkemur,“ segir Pétur jafnframt.