Rússneska gas- og olíufyrirtækið Gazprom, sem er í meirihlutaeigu rússneska ríkisins, er með til skoðunar að segja upp 1.600 manns. Gangi það eftir yrði um að ræða stærstu hópuppsögn í sögu fyrirtækisins.

Ríkismiðilinn TASS greindi frá því gær að fyrirtækið skoði að fækka starfsfólki í höfuðstöðvum sínum í Sankti Pétursborg um ríflega 40%, eða úr 4.100 í tæplega 2.500.

Gazprom glímir við mikinn rekstrarvanda vegna minnkandi gassölu í Evrópu eftir skemmdarverk á Nord Stream gasleiðslunni ásamt því að refsiaðgerðir Vesturlanda vegna innrás Rússa í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á olíuarm fyrirtækisins, að því er segir í frétt Financial Times.

Gazprom tapaði 629 milljörðum rúbla, eða um 6,9 milljörðum dala, árið 2023 sem er mesta tap fyrirtækisins á síðastliðnum 25 árum. Tekjur félagsins drógust saman um 30% milli ára og námu 8,5 þúsund milljörðum rúbla. Gassala Gazprom dróst saman um meira en helming og nam 4,1 þúsund milljörðum rúbla.