Stjórn Donalds Trump Bandaríkja­for­seta íhugar nú að lækka tolla á inn­flutning frá Kína, í sumum til­fellum um helming, til að draga úr spennu milli stærstu hag­kerfa heims.

Ákvörðun þess efnis hefur ekki verið tekin, en sam­kvæmt The Wall Street Journal eru um­ræður í gangi sem gefur til kynna breyttar áherslur í við­skipta­stefnu Hvíta hússins.

Sam­kvæmt heimildum WSJ eru til­lögur á borði Hvíta hússins sem myndu fella suma tolla niður í 50–65% af fyrri álögum.

Meðal hug­mynda er stig­skipt nálgun þar sem vörur sem ekki teljast ógna þjóðaröryggi sæti 35% tollum, á meðan vörur með stefnu­markandi mikilvægi fyrir Bandaríkin sæti að minnsta kosti 100% tollum.

Slík kerfi yrðu hug­san­lega inn­leidd smám saman á fimm árum.

Tollar sem Trump lagði á í annarri for­setatíð sinni hafa numið allt að 145% á kín­verskar vörur og stuðlað að aukinni spennu í sam­skiptum ríkjanna. Nú virðist sem for­setinn sé til­búinn að slaka á þeirri línu.

„Það verða lækkanir, en þær verða ekki niður í núll,“ sagði Trump í gærkvöldi.

Fréttirnar vöktu strax jákvæð viðbrögð á mörkuðum þar sem óvissa vegna harðari tolla hafði skapað veru­lega sveiflu síðustu vikur.

Merki um viðsnúning í sam­skiptum ríkjanna

Kína hefur í kjölfarið lýst sig reiðu­búið til viðræðna, en gaf jafn­framt til kynna að ekki yrði samið á meðan hótanir frá Bandaríkjunum væru í gangi. Heimildir sem vinna með kín­verskum em­bættis­mönnum segja að um­mæli Trumps á þriðju­dag séu þar túlkuð sem veik­leika­merki og að hann sé til­búinn að gefa eftir.

Þetta markar breytingu frá undan­förnum vikum, þar sem síendur­teknar gagn­kvæmar tolla­hækkanir og harðorða­skipti milli ríkjanna höfðu valdið óróa á hluta­bréfa­mörkuðum um allan heim – þar sem margar helstu hluta­bréfa­vísitölur lentu í sínum verstu vikum í mörg ár.

Viðræður gætu hafist á ný

Áður hafði verið greint frá því að Hvíta húsið hygðist nýta við­skipta­stefnu sína til að þrýsta á banda­lags­ríki um að draga úr tengslum sínum við Kína. Nú hafa þó tals­menn fjár­málaráðu­neytisins gefið til kynna að mögu­leiki sé á form­legum viðræðum um við­skipta­samning milli ríkjanna.

Slíkar viðræður myndu þó þurfa að fara fram beint milli Trumps og kín­verska for­setans Xi Jin­ping – en þeir hafa ekki átt sam­tal frá því Trump tók aftur við em­bætti.