Stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta íhugar nú að lækka tolla á innflutning frá Kína, í sumum tilfellum um helming, til að draga úr spennu milli stærstu hagkerfa heims.
Ákvörðun þess efnis hefur ekki verið tekin, en samkvæmt The Wall Street Journal eru umræður í gangi sem gefur til kynna breyttar áherslur í viðskiptastefnu Hvíta hússins.
Samkvæmt heimildum WSJ eru tillögur á borði Hvíta hússins sem myndu fella suma tolla niður í 50–65% af fyrri álögum.
Meðal hugmynda er stigskipt nálgun þar sem vörur sem ekki teljast ógna þjóðaröryggi sæti 35% tollum, á meðan vörur með stefnumarkandi mikilvægi fyrir Bandaríkin sæti að minnsta kosti 100% tollum.
Slík kerfi yrðu hugsanlega innleidd smám saman á fimm árum.
Tollar sem Trump lagði á í annarri forsetatíð sinni hafa numið allt að 145% á kínverskar vörur og stuðlað að aukinni spennu í samskiptum ríkjanna. Nú virðist sem forsetinn sé tilbúinn að slaka á þeirri línu.
„Það verða lækkanir, en þær verða ekki niður í núll,“ sagði Trump í gærkvöldi.
Fréttirnar vöktu strax jákvæð viðbrögð á mörkuðum þar sem óvissa vegna harðari tolla hafði skapað verulega sveiflu síðustu vikur.
Merki um viðsnúning í samskiptum ríkjanna
Kína hefur í kjölfarið lýst sig reiðubúið til viðræðna, en gaf jafnframt til kynna að ekki yrði samið á meðan hótanir frá Bandaríkjunum væru í gangi. Heimildir sem vinna með kínverskum embættismönnum segja að ummæli Trumps á þriðjudag séu þar túlkuð sem veikleikamerki og að hann sé tilbúinn að gefa eftir.
Þetta markar breytingu frá undanförnum vikum, þar sem síendurteknar gagnkvæmar tollahækkanir og harðorðaskipti milli ríkjanna höfðu valdið óróa á hlutabréfamörkuðum um allan heim – þar sem margar helstu hlutabréfavísitölur lentu í sínum verstu vikum í mörg ár.
Viðræður gætu hafist á ný
Áður hafði verið greint frá því að Hvíta húsið hygðist nýta viðskiptastefnu sína til að þrýsta á bandalagsríki um að draga úr tengslum sínum við Kína. Nú hafa þó talsmenn fjármálaráðuneytisins gefið til kynna að möguleiki sé á formlegum viðræðum um viðskiptasamning milli ríkjanna.
Slíkar viðræður myndu þó þurfa að fara fram beint milli Trumps og kínverska forsetans Xi Jinping – en þeir hafa ekki átt samtal frá því Trump tók aftur við embætti.