Hópur tuttugu lífeyrissjóða lýsa frumvarpi fjármálaráðherra um slit ÍL-sjóðs sem grundvallarbreytingu á fyrri afstöðu ráðherrans í málinu. Frumvarpið feli í sér viðurkenningu á rétti skuldabréfaeigenda til vaxta af íbúðabréfum allt til lokagjalddaga og ábyrgð ríkisins á þeim.
„Frumvarpið myndi hins vegar vera fjarri því að ná yfirlýstum markmiðum sínum yrði það að lögum. Það myndi að öllum líkindum auka við fjárútgjöld ríkisins, raska jafnvægi á fjármálamarkaði, skapa áratuga óvissu um uppgjör á skuldbindingum ÍL-sjóðs og skaða orðspor ríkisins. Lögin myndu því beinlínis stríða gegn þeim markmiðum sem að er stefnt,“ segir í tilkynningu sjóðanna í tilefni af umsögn Logos lögmannsþjónustu um frumvarpið fyrir hönd þeirra.
Ávísun á langvarandi ágreiningsmál
Lífeyrissjóðirnir segja að svo virðist sem ekki hafi farið fram viðeigandi greining af hálfu ráðuneytisins eða Seðlabankans á fjármálastöðugleika, peningamagni í umferð og þar með verðbólgu og fleiri slíkum þáttum.
Ennfremur beri frumvarpið þess skýr merki að íslenska ríkið hyggist sniðganga ábyrgðarskuldbindingar sínar gagnvart skuldabréfaeigendum þrátt fyrir viðurkenningu þeirra á ytra borði. Lagasetningin fæli í sér eignarnám eða bótaskylda takmörkun eignarréttinda skuldabréfaeigenda án þess að uppfyllt væru skilyrði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um gæði lagasetningar, almenningsþörf, fullt verð og kröfur um meðalhóf.
„Frumvarpið er ávísun á langvarandi ágreiningsmál íslenska ríkisins við lífeyrissjóðina í landinu fyrir dómstólum.“
Sjóðirnir segja fjölmargar aðrar athugasemdir gerðar við frumvarpsdrögin. Þær séu m.a. um efnahagslega þætti unnar í samráði við dr. Hersi Sigurgeirsson, prófessor í fjármálum við Háskóla Íslands og Arctica Finance.