ÍL-sjóður, sem fjármálaráðherra fer með yfirstjórn yfir, lauk tveimur skiptiútboðum í dag þar sem eigendum Íbúðabréfa sjóðsins, í flokkunum HFF 44 & HFF 34, var boðið að skipta út bréfunum fyrir verðtryggð ríkisskuldabréf. Alls var skipt á bréfum að andvirði 26 milljarðar króna.

„Í ljósi mikillar eftirspurnar í skiptiútboðum dagsins mun ÍL-sjóður huga að frekari útboðum sem kynnt verða síðar,“ segir í tilkynningu ÍL-sjóðs.

Verðið var fyrirfram ákveðið og tók mið af gangvirði hinna verðtryggðu ríkisskuldabréfa, RIKS 30 & RIKS 33, í lok dags á þriðjudag, daginn áður en tilkynnt var um tímasetningu og fyrirkomulag útboðsins.

Verð Íbúðabréfanna í skiptunum var 100 slétt, svokallað par, sem jafngildir því að aðeins sé greitt fyrir höfuðstól bréfanna, en ekkert álag lagt á verðið þrátt fyrir að bréfin beri 3,75% verðtryggða vexti með ríkisábyrgð næstu 11 og 21 árin.

Önnur leið til að líta á verð Íbúðabréfanna er að ávöxtunarkrafa þeirra í viðskiptunum var 3,75%, samanborið við 2,84% og 2,73% ávöxtunarkröfu ríkisbréfanna sem þeim var skipt fyrir.

Alls bárust tilboð að fjárhæð tæplega 11 milljarðar króna að nafnvirði í verðtryggða flokkinn RIKS 33 og var tilboðum að fjárhæð þeim öllum tekið á á fyrirfram ákveðna verðinu 102,15. Á móti kaupir ÍL-sjóður til baka 9,8 milljarða að nafnvirði í flokknum HFF44 á fyrirfram ákveðna verðinu 100.

Þá bárust tilboð að fjárhæð 16,65 milljarðar að nafnvirði í verðtryggða flokkinn RIKS 30 og var tilboðum að fjárhæð 12,15 milljörðum að nafnvirði tekið á fyrirfram ákveðna verðinu 102,4. Á móti kaupir ÍL-sjóður til baka 16,29 milljarða að nafnvirði í flokknum HFF 34 á fyrirfram ákveðna verðinu 100.

Ráðu­neytið lagði fyrir um tveimur mánuðum fram frum­varp til laga um slit „ó­gjald­færra opin­berra aðila“, sem ætlað er að skapa laga­grund­völl fyrir slita­með­ferð ÍL-sjóðs.