ÍL-sjóður, gamli Íbúðalánasjóður, tapaði 13,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 16,6 milljarða tap á fyrri árshelmingi 2022. Eigið fé ÍL-sjóðs var neikvætt um rúma 244 milljarða í lok júní síðastliðnum. Árshlutareikningur sjóðsins var birtur síðdegis í dag.

Hreinar vaxtatekjur voru neikvæðar um 11,9 milljarða á fyrstu sex mánuðum þessa árs en til samanburðar voru þær neikvæðar um 12,7 milljarða á sama tíma í fyrra.

Í áritun umsjónarmanns sjóðsins segir að uppgreiðslur útlána hafi haldist áfram að dragast saman á fyrstu sex mánuðum ársins. Uppgreiðslur útlána umfram samningsbundnar afborganir námu 5,8 milljörðum á fyrstu sex mánuðum þessa árs en til samanburðar námu þær 23,5 milljörðum á öllu síðasta ári.

Eignir ÍL-sjóðs voru bókfærðar á 641,6 milljarða í lok júní sl. og eigið fé var neikvætt um 243,9 milljarða.

Meta kostnað af uppgjöri á 79 milljarða

Í árshlutareikningnum segir að ef miðað er við virði eigna sjóðsins eins og þær birtast í uppgjörinu sé metinn kostnaður ríkissjóðs við uppgjör á ríkisábyrgð vegna skulda ÍL-sjóðs 79 milljarðar króna.

„Slíkt mat er óvissu háð og tekur mið af aðstæðum á markaði hverju sinni en eins og fram kom í skýrslu til Alþingis má gera ráð fyrir að kostnaður við uppgjör á ríkisábyrgð aukist um 1,5 ma.kr. með hverjum mánuði sem líður,“ segir í uppgjörinu sem sjóðurinn birti í dag.

Í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um stöðu sjóðsins, sem birt var í október 2022, var kostnaður ríkissjóðs við uppgjör á ríkisábyrgðinni metinn á 47 milljarða króna miðað við stöðu sjóðsins í hálfsársuppgjöri 2022.

Líkt og þekkt er kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hugmyndir um slit ÍL-sjóðs í október 2022 samhliða birtingu framangreindrar skýrslu.

Fjármálaráðuneytið sóttist eftir samkomulagi um uppgjör á skuldum sjóðsins við stærstu kröfuhafa sjóðsins, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir. Hópur tuttugu lífeyrissjóða lýsti því hins vegar yfir í lok febrúar að þeir teldu ekki forsendur fyrir samningaviðræður við ráðuneytið að óbreyttu.

Bjarni Benediktsson lagði í kjölfarið fram áformaskjal um framlagningu lagafrumvarps sem heimili slit og uppgjör ÍL-sjóðs. Á þingmálaskrá kemur fram að fjármálaráðherra hyggist leggja fram frumvarp um slit og uppgjör ÍL-sjóðs í nóvember.