ÍL-sjóður, gamli Íbúðalánasjóður, tapaði 34 milljörðum króna árið 2022, samanborið við 13,9 milljarða tap árið 2021. Eigið fé ÍL-sjóðs var því neikvætt um 230,7 milljarða í árslok 2022. Ársreikningur sjóðsins var birtur í dag.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar er sérstaklega vakin athygli á að upplausnarvirði eigna og skulda sjóðsins í árslok 2022 hafi verið metið neikvætt um 81,4 milljarða króna „og endurspeglar það skuldbindingu ríkissjóðs vegna einfaldrar ábyrgðar hans“, þ.e. sú fjárhæð sem ríkið telur sig þurfa að leggja til við uppgjör og slit sjóðsins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti skýrslu og hugmyndir um slit og uppgjör ÍL-sjóðs í október síðastliðnum. Í skýrslunni kemur fram að miðað við stöðuna í hálfsársuppgjöri 2022 hafi upplausnarvirðið verið neikvætt um tæplega 47 milljarða. Staðan hefur því versnað um 34 milljarða.
Til samanburðar áætlaði fjármálaráðuneytið að til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða eða tæplega 200 milljarða að núvirði.
„Gera má ráð fyrir að með hverjum mánuði sem líður aukist kostnaður ríkissjóðs við uppgjör um 1,5 [milljarða], eða 18 [milljarða] á ári. Því er mikilvægt og ábyrgt gagnvart komandi kynslóðum og kröfuhöfum að gengið verði til uppgjörsins fyrr en seinna, óvissa lágmörkuð og viðvarandi taprekstur og hækkun ábyrgðarinnar stöðvuð,“ segir í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í október.
Vaxtamunurinn neikvæður um 19,4 milljarða
Vaxtatekjur ÍL-sjóðs jukust úr 37,7 milljörðum í 69,5 milljörðum króna á milli ára. Vaxtagjöld sjóðsins jukust úr 52 milljörðum í 89 milljarða. Hreinar vaxtatekjur voru því neikvæðar um 19,4 milljarða króna, samanborið við 14,5 milljarða árið áður.
„Aukningu neikvæðra hreinna vaxtatekna má helst rekja til áhrifa verðtryggingar, en verðtryggðar skuldir umfram verðtryggðar eignir námu 274 [milljörðum króna] í árslok 2022,“ segir í áritun umsjónaraðila.
Fjárhagsvanda ÍL-sjóðs má einkum rekja til uppgreiðsluáhættu sem felur í sér að fjármögnun sjóðsins í formi íbúðabréfa er óuppgreiðanleg en lántakendur hafa á hinn bóginn ávallt haft heimild til að greiða upp lán sín hvenær sem er. Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til þess að vaxtatekjur af lausu fé sjóðsins sem verður til vegna uppgreiðslna á útlánum duga ekki til að greiða föst vaxtagjöld.
Í ársreikningnum segir að uppgreiðslur á útlánasafni hafi haldið áfram í fyrra þrátt fyrir að hægt hafi á þeim frá árinu á undan.
Skuldabréfasafnið fært niður um 14,5 milljarða
Auk neikvæðs vaxtamunar þá leiddu gangvirðisbreytingar á skuldabréfasafni sjóðsins til taps upp á 14,5 milljarða króna. Skuldabréfasafn ÍL-sjóðs var metið á 144 milljarða í lok árs 2022 samanborið við 2021.
Sértryggða skuldabréf vega meira en helming af skuldabréfasafninu en þau voru bókfærð á 73 milljarða um áramótin. Ríkisskuldabréf í eigu ÍL-sjóðs námu 47 milljörðum, skuldabréf sveitarfélaga 14 milljörðum og skuldabréf fyrirtækja 10 milljörðum.
Heildareignir ÍL-sjóðs voru bókfærðar á 645,9 milljarða króna í lok síðasta árs. Skuldir ÍL-sjóðs námu 876,6 milljörðum og eigið fé var því sem fyrr segir neikvætt um 230,7 milljarða.
Reyna til þrautar að ná samkomulagi við kröfuhafa
Bjarni lagði fram þrjá valkosti sem ríkið stendur frammi fyrir varðandi ÍL-sjóðs. Einn þeirra er að knýja fram gjaldþrotaskipti eða slit á ÍL-sjóði með lagasetningu. Fjármálaráðuneytið hefur lýst því að samkomulag við skuldabréfaeigendur, sé þó æskilegasti kosturinn.
Í lok febrúar lýsti hópur tuttugu lífeyrissjóða því yfir að ekki væri grundvöllur fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins að óbreyttu þar sem ekki var komið til móts við kröfur þeirra um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins sem eina af grunnforsendum slíkra viðræðna.
Bjarni lagði í kjölfarið fram áformaskjal um framlagningu lagafrumvarps sem heimili slit og uppgjör ÍL-sjóðs. Í ársreikningi ÍL-sjóðs segir þó að gert sér ráð fyrir því að áður en eiginleg slitameðferð hefjist verði reynt til þrautar að ná samkomulagi við kröfuhafa