Veitingastaðurinn Indo-Italian opnaði í dag við Engjateig 19 í Reykjavík en veitingastaðurinn er sannkölluð nýjung á Íslandi. Um er að ræða blöndu af ítölskum og indverskum mat og búast eigendur við góðum móttökum frá viðskiptavinum.
Staðurinn er í eigu Shijo Mathew og Helen Rose en þau eru bæði frá Indlandi. Shijo hefur unnið sem kokkur í 20 ár en þekkir vel til ítalskrar matargerðar.
„Við erum í raun ekki að blanda öllum matnum saman, en setjum til dæmis kjúklinga Tikka Masala og Panir Tikka í pizzurnar. Svo erum við með risotto, pasta og heimilislegan indverskan mat.“

Helen bætir við að Íslendingar séu alltaf mjög spenntir fyrir einhverju nýju. „Íslendingar elska fjölbreytileikann. Við erum með bæði ítalskan og indverskan mat núna og svo komum við með fleiri hugmyndir seinna.“
Indverjar og Ítalir eru þekktir fyrir góðan mat en eru þó líka mjög varkárir þegar kemur að breytingum og eru báðar þjóðir þekktar fyrir að passa vel upp á matinn sinn. Shijo og Helen taka bæði undir en segja hins vegar að maturinn í báðum löndum sé það góður að það verði einfaldlega að bjóða upp á bæði.