Spari­sjóðurinn Indó er byrjaður að bjóða upp á lán en sam­kvæmt tölvupósti sem við­skipta­vinir spari­sjóðsins fengu í morgun er boðið upp á þrenns konar lán: Fyrir­fram­greidd laun, færslusplitt og yfir­drátt.

Indó sér milljarð króna með hluta­fjáraukningu í desember í fyrra til að fjár­magna þessa inn­reið sína á ís­lenskan fjár­mála­markað.

Sam­kvæmt spari­sjóðnum fór fjár­magnið að stærstum hluta í að upp­fylla eigin­fjárkröfur fyrir útlána­starf­semi en einnig var nokkrum stöðu­gildum bætt við.

Vextir af láni hjá Indó með færslusplitti eru 15,50% og segir spari­sjóðurinn að því fylgi enginn auka­kostnaður. Ekkert lántöku­gjald, ekkert niður­greiðslu­gjald, ekkert greiðslu­gjald, ekkert færslu­gjald.

Við­skipta­vinir Indó geta sótt um fyrir fram greidd laun fyrr en vana­lega í desember vegna jólanna eða þann 20. desember.

„Yfir­dráttur er alltaf dýr - svo ef þú tekur yfir­drátt í Indó viljum við hjálpa þér að losa þig við hann aftur! Þess vegna færð þú enn betri vexti ef þú gerir plan um að lækka yfir­dráttinn mánaðar­lega!” segir í tölvupósti Indó.

Vextir á yfir­drætti hjá Indó eru 15,50% en spari­sjóðurinn býður 13,50% vexti ef við­skipta­vinur gerir plan um að greiða hann til baka.

Til samanburðar eru yfirdráttarlán hjá bönkunum 16,25% en dráttar­vextir Seðla­bankans eru 16,25% um þessar mundir.

Í febrúar greindi spari­sjóðurinn frá því að næsta skref yrðu síðan sam­eigin­legir reikningar, fyrst og fremst hugsaðir sem fjöl­skyldu­reikningar, sem bjóða munu upp á ýmiss konar um­boð, stjórn og sam­tengingar.

Indó spari­sjóður tapaði 349 milljónum króna á sínu fyrsta form­lega starfsári 2023 saman­borið við 196 milljóna tap árið áður.

Félagið fékk starfs­leyfi frá Seðla­banka Ís­lands 15. febrúar 2022 og opnaði form­lega á veltu­reikninga fyrir al­menning í lok janúar í fyrra.

Á síðasta ári voru tæp­lega 1,5 milljarðar króna greiddir inn í félagið í formi nýs hluta­fjár, að teknu til­liti til yfir­verðs, og fjár­festi félagið fyrir um 250 milljónir.

Fjöldi not­enda indó hefur aukist hratt á síðustu misserum.

Í ný­legri um­fjöllun Við­skipta­blaðsins sagði Haukur Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri og annar stofn­enda indó, að mánaðar­legur fjöldi ein­stakra færslna væri farinn að slaga hátt í milljón.

Á þann mæli­kvarða sé indó nú komið með um 10% markaðs­hlut­deild.