Sparisjóðurinn Indó er byrjaður að bjóða upp á lán en samkvæmt tölvupósti sem viðskiptavinir sparisjóðsins fengu í morgun er boðið upp á þrenns konar lán: Fyrirframgreidd laun, færslusplitt og yfirdrátt.
Indó sér milljarð króna með hlutafjáraukningu í desember í fyrra til að fjármagna þessa innreið sína á íslenskan fjármálamarkað.
Samkvæmt sparisjóðnum fór fjármagnið að stærstum hluta í að uppfylla eiginfjárkröfur fyrir útlánastarfsemi en einnig var nokkrum stöðugildum bætt við.
Vextir af láni hjá Indó með færslusplitti eru 15,50% og segir sparisjóðurinn að því fylgi enginn aukakostnaður. Ekkert lántökugjald, ekkert niðurgreiðslugjald, ekkert greiðslugjald, ekkert færslugjald.
Viðskiptavinir Indó geta sótt um fyrir fram greidd laun fyrr en vanalega í desember vegna jólanna eða þann 20. desember.
„Yfirdráttur er alltaf dýr - svo ef þú tekur yfirdrátt í Indó viljum við hjálpa þér að losa þig við hann aftur! Þess vegna færð þú enn betri vexti ef þú gerir plan um að lækka yfirdráttinn mánaðarlega!” segir í tölvupósti Indó.
Vextir á yfirdrætti hjá Indó eru 15,50% en sparisjóðurinn býður 13,50% vexti ef viðskiptavinur gerir plan um að greiða hann til baka.
Til samanburðar eru yfirdráttarlán hjá bönkunum 16,25% en dráttarvextir Seðlabankans eru 16,25% um þessar mundir.
Í febrúar greindi sparisjóðurinn frá því að næsta skref yrðu síðan sameiginlegir reikningar, fyrst og fremst hugsaðir sem fjölskyldureikningar, sem bjóða munu upp á ýmiss konar umboð, stjórn og samtengingar.
Indó sparisjóður tapaði 349 milljónum króna á sínu fyrsta formlega starfsári 2023 samanborið við 196 milljóna tap árið áður.
Félagið fékk starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands 15. febrúar 2022 og opnaði formlega á veltureikninga fyrir almenning í lok janúar í fyrra.
Á síðasta ári voru tæplega 1,5 milljarðar króna greiddir inn í félagið í formi nýs hlutafjár, að teknu tilliti til yfirverðs, og fjárfesti félagið fyrir um 250 milljónir.
Fjöldi notenda indó hefur aukist hratt á síðustu misserum.
Í nýlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins sagði Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda indó, að mánaðarlegur fjöldi einstakra færslna væri farinn að slaga hátt í milljón.
Á þann mælikvarða sé indó nú komið með um 10% markaðshlutdeild.