Donald Trump fullyrti í gær að Indverjar hefðu boðist til að fella niður alla tolla á vörur sem fluttar eru til Indlands frá Bandaríkjunum. Hann lét ummælin falla meðan hann var í heimsókn í Doha en hann er nú að funda með leiðtogum Mið-Austurlanda.

Á vef BBC segir að Indverjar kannist ekkert við neins konar samkomulag og hafa mótmælt fullyrðingum forsetans.

Utanríkisráðherra Indlands, S Jaishankar, gaf út yfirlýsingu við indverska fréttamiðla þar sem hann sagði að viðræður væru enn í gangi og að það ætti ekki að ákveða neitt fyrr en búið væri að klára viðræðurnar.

Indland og Bandaríkin hafa undanfarið verið að ræða mögulegan viðskiptasamning en ráðherrann ítrekaði að allir viðskiptasamningar yrðu gagnkvæmir og myndu þjóna hagsmunum beggja þjóða.

Trump minntist einnig á áform Apple um að framleiða meirihluta iPhone-símanna sinna á Indlandi til að komast hjá bandarískum tollum á vörur sem koma frá Kína.