Seðlabanki Indlands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25% til að koma til móts við tollahækkanir Donalds Trumps. Vextir þar í landi hafa því lækkað úr 6,25% niður í 6% en vextir voru síðast lækkaðir í febrúar í fyrsta sinn í fimm ár.

Á vef BBC segir að seðlabanki Indlands hafi einnig lækkað hagspárhorfur fyrir árið úr 6,7% niður í 6,5% og áætlar þá tölu fyrir næsta ár líka.

Flestir hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir aðeins einni stýrivaxtalækkun á Indlandi til viðbótar á þessu ári en segja nú að RBI gæti gripið til fleiri vaxtalækkana fyrir áramót. Sanjay Malhotra, seðlabankastjóri Indlands, býst einnig við fleiri áskorunum í hagkerfinu á næstunni.

Frá og með deginum í dag verður allt að 27% tollur lagður á allar indverskar vörur sem fluttar eru út til Bandaríkjanna. Tollarnir eru þó lægri en 104% tollur sem lagður hefur verið á Kína og 46% og 49% tollarnir sem lagðir voru á Víetnam og Kambódíu.

Indverjar hafa tekið þá afstöðu að leitast eftir samningi við Bandaríkin en með 6,5% áætlaðan vöxt er Indland að vaxa hraðar en öll hin stærstu hagkerfi heims. Vöxturinn er þó mun minni en 2023-2024 þegar hagvöxtur stóð í hæstu hæðum, eða um 9,2%.