Fjárfestingarfélagið InfoCapital ehf., sem er í 97% eigu Reynis Grétarssonar, keypti hlutabréf í Sýn fyrir 50,8 milljónir króna í gær. Alls keypti félagið 2 milljónir hluta á genginu 25,4 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
InfoCapital á eftir kaupin 12 milljónir hluta í Sýn, eða um 4,8% eignarhlut, sem er um 314 milljónir króna að markaðsvirði miðað við núverandi 26,2 króna markaðsgengi hlutabréfa Sýnar.
InfoCapital á einnig óbeinan hlut í Sýn í gegnum 80,7% eignarhlut sinn í Gavia Invest ehf., stærsta hluthafa Sýnar með 18,2% hlut. Samtals á InfoCaptial því um 19,6% beinan og óbeinan hlut í Sýn.
Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, og Ragnar Páll Dyer, sem situr einnig í stjórn Sýnar, eru hluthafar og framkvæmdastjórar í InfoCapital ehf. Hákon á sjálfur 4 milljónir hluta, eða um 1,6% eignarhlut, í gegnum félagið sitt Íslex ehf. Þá keypti Ragnar Páll einnig beint í Sýn í maí 2024.

Í morgun var tilkynnt um að Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, hefði keypt hlutabréf í Sýn fyrir 10 milljónir króna.
Kaup InfoCapital og Herdísar fylgja í kjölfar þess að Sýn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung á þriðjudaginn síðasta. Áfram er taprekstur hjá Sýn en Herdís sagði heildarniðustöðu á fyrri árshelmingi jákvæða en reksturinn sé í takt við áætlanir og kjarnatekjur sýni vöxt.
Þá tilkynnti Sýn í síðustu viku um samkomulag við Nova um helstu atriði fyrirhugaðra samninga um framsal farnetsdreifikerfa félaganna til Sendafélagsins sem er í sameiginlegri eigu félaganna.