Þrotabústjóri sem skipaður var af bandarískum dómstóli hefur kynnt áform um að selja fjölmiðil Alex Jones, Infowars, til að greiða hluta af þeim 1,5 milljörðum dala sem hann skuldar fjölskyldum barnanna sem voru skotin í skólanum í Sandy Hook.

Í dómsskjölum, sem lögð voru fram á sunnudaginn, segir að þrotabústjórinn, Christopher Murray, muni loka fyrir starfsemi Free Speech Systems og selja eignir Infowars.

Tilkynningin kemur rúmlega viku eftir að dómari ákvað að taka eignabú Alex Jones til gjaldþrotaskipta til að greiða fjölskyldunum en Jones hafði dreift lygum um skotárásina árið 2012 í skóla í Conneticut sem varð til þess að aðdáendur Jones áreittu fjölskyldurnar um árabil.

Jones var dæmdur til að greiða upphæðina árið 2022 í meiðyrðamálinu en hann hafði fullyrt að skotárásin, sem varð 20 börnum og sex fullorðnum að bana, hefði verið sviðsett af ríkisstjórninni til að geta fjarlægt skotvopn Bandaríkjamanna.