Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði á Alþingi í morgun að fjöldi íbúða sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í uppbyggingu á muni liggja fyrir um helgina.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Ingu hversu margar íbúðir hún telji að þurfi að byggja til viðbótar á þessu ári og sagði hún von á þeirri tölu.
„Hún [talan] liggur ekki alveg fyrir enda segi ég það bara strax um helgina. Þá vænti ég þess að háttvirtur þingmaður geti með kaffibollanum sínum verið rosalega glaður þegar hann sér alveg ótrúlega fallega tölu og risastóra tölu,“ sagði Inga í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.
Inga skipaði nýverið aðgerðarhóp í húsnæðismálum en í honum eru þrír sitjandi þingmenn.
Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigurður Ingi spurði Ingu hvort það þyrfti ekki að breyta deiluskipulagi á höfuðborgarsvæðinu en í aðgerðarhópnum er einmitt að finna fyrrum borgarstjóra sem Sigurður sagði hafa „staðið gegn því lengst af sem oddviti Samfylkingarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu að breyta svæðisskipulaginu og vera í þéttingareitum.”
Inga sagðist afskaplega stolt af þessum hópi og sagði ýmsar væringar í gangi, sér í lagi í borginni.
Stjórnarmyndunarviðræður nýrrar borgarstjórnar standa nú yfir en Inga segist vita til þess að þeir fimm flokkar sem þar ræða saman ætla boða átak í íbúðauppbyggingu.
„Mjög fljótlega verður vonandi birtur samningur þessarar nýju borgarstjórnar, sem vonandi verður að veruleika. En þar mun margt ánægjulegt koma á óvart þar á meðal stórkostlegt átak í uppbyggingu á húsnæði, svo þúsundum og aftur þúsundum íbúða skipti,“ sagði Inga.
Líkt og kunnugt er ákvað Inga Sæland að blanda sér í borgarmálin fyrir skömmu er hún tók fyrir hendur Helgu Þórðardóttur, oddvita Flokks fólksins í borginni, um að ganga í meirihlutasamstarf með Framsókn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokki.
Hvað varðar deiliskipulagið ákvað Inga síðan ranglega að saka Kópavogsbæ um að hafa staðið í vegi fyrir því að hægt sé að byggja utan vaxtarmarka.
„Fyrir utan það að það er eiginlega Kópavogur sem hefur helst staðið í vegi fyrir því að við getum verið að stækka eins og við vaxtamörkin,“ sagði Inga á Alþingi.
Þetta er rangt enda hefur bæjarstjóri Kópavogs verið einn helsti talsmaður þess að breyta vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins sem hafa verið óbreytt frá árinu 2015.
Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa verið helstu andstæðingar þess og beittu nýverið neitunarvaldi gegn því að vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins stækkuðu umfram svæðisskipulagið frá árinu 2015.
Þá ætti einnig að vera flestum alkunnugt að Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir þéttingu byggðar síðastliðin ár. Dagur B. Eggertsson leiddi þá vinnu um langa hríð en hann situr nú einmitt í aðgerðarhópi Ingu.