Inga Sæ­land, félags- og húsnæðis­málaráðherra, sagði á Alþingi í morgun að fjöldi íbúða sem ríkis­stjórnin ætlar að ráðast í upp­byggingu á muni liggja fyrir um helgina.

Sigurður Ingi Jóhanns­son, for­maður Framsóknar­flokksins, spurði Ingu hversu margar íbúðir hún telji að þurfi að byggja til viðbótar á þessu ári og sagði hún von á þeirri tölu.

„Hún [talan] liggur ekki alveg fyrir enda segi ég það bara strax um helgina. Þá vænti ég þess að hátt­virtur þing­maður geti með kaffi­bollanum sínum verið rosa­lega glaður þegar hann sér alveg ótrú­lega fal­lega tölu og risastóra tölu,“ sagði Inga í óundir­búnum fyrir­spurnar­tíma á Alþingi.

Inga skipaði nýverið að­gerðar­hóp í húsnæðis­málum en í honum eru þrír sitjandi þing­menn.

Ragnar Þór Ingólfs­son, þing­maður Flokks fólksins, Dagur B. Eggerts­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, og Guðbrandur Einars­son, þing­maður Viðreisnar.

Sigurður Ingi spurði Ingu hvort það þyrfti ekki að breyta deilu­skipu­lagi á höfuð­borgar­svæðinu en í að­gerðar­hópnum er ein­mitt að finna fyrrum borgar­stjóra sem Sigurður sagði hafa „staðið gegn því lengst af sem odd­viti Sam­fylkingarinnar hér á höfuð­borgar­svæðinu að breyta svæðis­skipu­laginu og vera í þéttingareitum.”

Inga sagðist af­skap­lega stolt af þessum hópi og sagði ýmsar væringar í gangi, sér í lagi í borginni.

Stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður nýrr­ar borg­ar­stjórn­ar standa nú yfir en Inga segist vita til þess að þeir fimm flokkar sem þar ræða saman ætla boða átak í íbúðauppbyggingu.

„Mjög fljót­lega verður vonandi birtur samningur þessarar nýju borgar­stjórnar, sem vonandi verður að veru­leika. En þar mun margt ánægju­legt koma á óvart þar á meðal stór­kost­legt átak í upp­byggingu á húsnæði, svo þúsundum og aftur þúsundum íbúða skipti,“ sagði Inga.

Líkt og kunnugt er ákvað Inga Sæ­land að blanda sér í borgar­málin fyrir skömmu er hún tók fyrir hendur Helgu Þórðar­dóttur, odd­vita Flokks fólksins í borginni, um að ganga í meiri­hluta­sam­starf með Framsókn, Viðreisn og Sjálf­stæðis­flokki.

Hvað varðar deili­skipu­lagið ákvað Inga síðan rang­lega að saka Kópa­vogs­bæ um að hafa staðið í vegi fyrir því að hægt sé að byggja utan vaxtar­marka.

„Fyrir utan það að það er eigin­lega Kópa­vogur sem hefur helst staðið í vegi fyrir því að við getum verið að stækka eins og við vaxta­mörkin,“ sagði Inga á Alþingi.

Þetta er rangt enda hefur bæjar­stjóri Kópa­vogs verið einn helsti tals­maður þess að breyta vaxtar­mörkum höfuð­borgar­svæðisins sem hafa verið óbreytt frá árinu 2015.

For­svars­menn Reykja­víkur­borgar hafa verið helstu and­stæðingar þess og beittu nýverið neitunar­valdi gegn því að vaxtar­mörk höfuð­borgar­svæðisins stækkuðu um­fram svæðis­skipu­lagið frá árinu 2015.

Þá ætti einnig að vera flestum al­kunnugt að Reykja­víkur­borg hefur staðið fyrir þéttingu byggðar síðastliðin ár. Dagur B. Eggerts­son leiddi þá vinnu um langa hríð en hann situr nú ein­mitt í að­gerðar­hópi Ingu.