Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað aðgerðahóp um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og úrbætur til lengri tíma.
Í hópnum sitja þrír þingmenn, einn úr hverjum stjórnarflokki, auk fulltrúa frá ráðuneytinu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Hópurinn starfar út kjörtímabilið í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar, segir á vef stjórnarráðsins, en samkvæmt fréttatilkynningu er hlutverk aðgerðahópsins fyrst og fremst að kortleggja áskoranir í húsnæðismálum og leggja fram tillögur að aðgerðum.
Markmiðið er að landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.
„Við boðuðum bráðaaðgerðir í húsnæðismálum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar enda þolir ástandið á húsnæðismarkaði enga bið. Að sama skapi er mjög mikilvægt að aðgerðahópurinn horfi fram á veginn og leggi fram tillögur að aðgerðum og kerfisbreytingum til lengri tíma til að koma á heilbrigðari húsnæðismarkaði. Við ætlum okkur að ráðast í þjóðarátak í húsnæðisuppbyggingu þar sem áhersla verður lögð á að fjölga íbúðum með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði og auka húsnæðisöryggi fólks,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra
Aðgerðahópurinn er skipaður:
- Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, formaður
- Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar
- Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar
- Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu
- Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar