Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði frá fyrirhuguðum aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar Flokks fólksins, Viðreisnar og Samfylkingar á opnum fundi sem fór fram hjá HMS í hádeginu í dag.
Í tilkynningu er haft eftir Ingu að meðal fyrstu aðgerða sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í er að breyta reglum um skammtímaleigu húsnæðis og minnka túristaleigu. Einnig sé stefnt að því að liðka fyrir umbreytingu á atvinnuhúsnæði yfir í íbúðarhúsnæði og fyrir uppbyggingu á tímabundnu einingarhúsnæði.
Þá sagði Inga að byrja eigi að byggja á ríkislóðum, gera samninga við sveitarfélög um lóðaframboð, auka við uppbyggingu á óhagnaðardrifnu húsnæði og breyta byggingareglugerðinni til að bregðast við myglumálum og tjóni sem húseigendur hafa orðið fyrir.
„Stóra verkefnið okkar núna, það er lóðir. Við viljum gera heildstæða samninga við sveitarfélögin um lóðarframboð og innviðauppbyggingu. Ríkisvaldið getur komið til móts við sveitarfélögin sem standa mörg höllum fæti vegna þeirra mörgu verkefna sem ríkið hefur fært þeim í fang. Okkur er í lófa lagið að hjálpa þeim við uppbyggingu skóla, leikskóla og á þeim svæðum sem við viljum koma í gang,” sagði Inga.
Þá sagði hún að það væri „draumur“ ríkisstjórnarinnar að taka saman höndum við lífeyrissjóðina í þessu verkefni.
Þess má geta að Inga sagði í kosningabaráttunni í lok síðasta árs að Flokkur flokksins vilji afnema undanþágu lífeyrissjóðanna frá staðgreiðslu skatta. Hún sagði að með því mætti sækja 90 milljarða króna í skatttekjur af lífeyrissjóðum árlega.
„Ríkisstjórnin einn sameinaður flokkur”
Í ávarpinu sagði Inga að áformaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru „raunverulegt, sýnilegt, þjóðarátak í uppbyggingu húsnæðis”.
„Þessi ríkisstjórn er ein heild. Við erum 37 manna flokkur, einn sameinaður flokkur. Við vinnum saman sem einn maður, sem einn ráðherra. Ef það þarf að liðka til fyrir einhverju máli í einhverju ráðuneyti, þá verður það gert. Loksins erum við, og ég, komin í aðstöðu til að gera eitthvað raunverulega í málinu og geta látið verkin tala,” sagði Inga.