Ingvar Hjálmarsson hefur tilkynnt um starfslok sín hjá íslenska hátæknifyrirtækinu Nox Medical. Hann hefur starfað þar frá árinu 2013 og sem framkvæmdastjóri frá 2022. Ingvar mun starfa áfram sem framkvæmdastjóri hjá Nox Medical á meðan endurskipulagning fer fram.

„Eftir nær 12 ár hjá þessu magnaða fyrirtæki hef ég ákveðið að stíga frá borði. Það hefur verið gríðarlegur heiður að fá að taka þátt í að skapa eitt framsæknasta hugverkafyrirtæki landsins og varla liðið sá dagur sem ég hef ekki hlakkað til að mæta í vinnuna og takast á við krefjandi verkefni með öllu því frábæra fólki sem þar starfar,” segir Ingvar.

Lítur stoltur um öxl

Ingvar segir í samtali við Viðskiptablaðið að eftir að hafa starfað í 12 ár hjá Nox, þar af 3 sem framkvæmdastjóri, hafi hann fundið fyrir köllun í aðrar áskoranir. Nox sé á frábærum stað eftir mikinn tekjuvöxt síðustu ára og því finnist honum þessi tímapunktur góður að stíga til hliðar.

Ingvar segist þakklátur fyrir tímann hjá Nox Medical og þá sigra sem hafi unnist. „Verkefnin hafa verið mörg og ólík og saman höfum við skapað alþjóðlegt vörumerki, byggt á hugviti, sem skilar milljörðum í tekjur inn í íslenskt hagkerfi,” segir Ingvar.

„Á síðustu árum höfum við ráðist í stór stefnumarkandi verkefni, þróað gagnadrifna sölunálgun á okkar stærstu mörkuðum, í Bandaríkjunum og Evrópu, og náð að auka tekjur og hagnað félagsins umfram væntingar.

Eftir allan þennan tíma hjá Nox mun ég vinna þétt með stjórnendum og starfsfólki fram að starfslokum til að tryggja snurðulausan rekstur.”

Nox Medical þróar og framleiðir mælitæki, hugbúnað, skýjalausnir og gervigreind sem notuð eru af læknum og heilbrigðisstarfsfólki til að mæla lífsmörk í svefni og greina svefnraskanir og svefnsjúkdóma. Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og er leiðandi á sviði lækningatækja í svefni. Nox Medical veltir um 6 milljörðum króna og hjá fyrirtækinu starfa um 140 manns.

Nox Medical er partur af Nox Health, sem er leiðtogi á heimsvísu í svefnheilbrigðislausnum. Árlega fá yfir tvær milljónir einstaklinga greiningu og lausn sinna svefnsjúkdóma með lausnum félagsins.

„Ingvar er sterkur leiðtogi, með skýra sýn, fagmaður fram í fingurgóma og hefur veitt okkur sem höfum unnið með honum innblástur með ástríðu sinni. Á sama tíma og við sjáum á eftir Ingvari, þá óskum við honum alls hins besta í næstu verkefnum,” segir Sigurjón Kristjánsson, forstjóri Nox Health, móðurfélags Nox Medical.