Innanflokkspólitík í Samfylkingunni kann að hafa haft áhrif á framvindu mála í borginni. Skammt er síðan Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, kvaddi borgarmálin er hann varð þingmaður. Síðan það gerðist hefur hann verið svo að segja verkefnalaus á þinginu, nánast strikaður út af Kristrúnu. Í þessu endurspeglast kergja forystu Samfylkingarinnar gagnvart borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að forystan vilji helst algjöra endurnýjun á lista flokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Sú ósk kann að rætast myndi Samfylkingin meirihluta til vinstri en flokkurinn á nú í viðræðum við Pírata, VG, Sósíalistaflokkinn og Flokk fólksins um myndun nýs meirihluta.
Reyfarakennd slit
Eins og kunnungt er sleit Einar Þorsteinsson borgarstjóri meirihlutasamstarfinu í Reykjavíkur síðastliðið föstudagskvöld. Meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hafði þá verið við völd síðan í kosningunum 2022.
![Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins.](http://vb.overcastcdn.com/images/129865.width-800.jpg)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
Á yfirborðinu átti þessi ákvörðun Einars sér fremur stuttan aðdraganda. Þriðjudaginn 4. febrúar var átakafundur í borgarstjórn, þar sem Framsóknarflokkurinn studdi tillögu Sjálfstæðisflokksins um áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri og breytingu á aðalskipulagi til samræmis við það. Þegar þetta lá fyrir óskuðu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar eftir að hlé yrði gert á fundinum. Í hléinu var afstaða Framsóknarflokksins til tillögu Sjálfstæðisflokksins gagnrýnd.
Seinna þennan dag, þriðjudaginn 4. febrúar, greindi Viðskiptablaðið frá könnun Gallup á fylgi flokkanna í borginni. Samkvæmt henni var Framsóknarflokkurinn svo gott sem að þurrkast út en flokkurinn mældist með 3,3% fylgi og engan borgarfulltrúa. Fylgi Framsóknarflokksins hefur verið á stöðugri niðurleið síðan í kosningunum 2022 þegar hann fékk 18,7% og 4 borgarfulltrúa. Samkvæmt könnunninni var meirihlutinn fallinn. Hann var einungis með 10 borgarfulltrúa í stað 13. Sjálfstæðisflokkurinn var aftur á móti á mikilli siglingu og mældist með 31,2% og 8 borgarfulltrúa í stað þeirra 6, sem hann hefur í dag.
„Mörg leiðindamál"
Þegar Einar var inntur viðbragða við niðurstöðum könnunarinnar var hann nokkuð ómyrkur í máli. Hann sagði Framsóknarflokkinn m.a. hafa þurft „að svara fyrir mörg leiðindamál frá fyrri kjörtímabilum og það hefur eflaust áhrif á fylgið.“
Daginn eftir, miðvikudaginn 5. febrúar var Einar í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins. Þar sem hann ræddi fylgihrun Framsóknar og flugvallarmálið. Í þættinum sagði hann: „Ég skal bara vera hreinskilinn, það hriktir aðeins í, í kringum þetta mál – og eðlilega. Afstaða Samfylkingar og Pírata, og að einhverju leyti Viðreisnar líka, hefur alveg verið skýr að þau vilja flugvöllinn burt. Við höfum ekki verið þar.“
Flugvallarmálið var toppurinn á ísjakanum. Framsóknarflokknum leið ekki vel í meirihlutasamstarfinu, eins og öll „leiðindamálin“ bera vitni um. Einar hefur metið stöðuna sem svo að Framsókn þyrfti að hefja leiftursókn til þessa að auka fylgi sitt enda einungis 15 mánuðir í kosninga.
Síðdegis á föstudeginum 7. febrúar greindi vb.is frá því að samkvæmt heimildum væru þreifingar hafnar um myndun nýs meirihluta í borginni frá miðju til hægri á pólitíska ásnum. Einar hafði þá hafið viðræður við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins. Þremur tímum eftir að þessi frétt birtist á vb.is barst tilkynning um að Einar hefði slitið meirihlutasamstarfinu og staðfest að flokkarnir fjórir ættu í viðræðum um myndun nýs meirihluta.
Fundurinn í Stjórnarráðinu
Á laugardeginum 8. febrúar héldu viðræður Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins áfram. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins boðaði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í skyndi til fundar í Stjórnarráðinu þennan dag. Á fundinn mætti Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins og Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
Hvað Kristrún sagði nákvæmlega hefur ekki verið upplýst en fundurinn hefur verið örlagaríkur því um klukkan sex síðdegis á laugardaginn tilkynnti Inga Sæland að flokkur hennar myndi ekki taka þátt í að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni. Þar með varð ljóst að viðræður um nýjan meirihluta frá miðju til hægri voru runnar út í sandinn.
Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.