Samkvæmt greiningu Landsbankans þykir ólíklegt að atvinnuleysi á Íslandi komi til með að minnka þar sem aðflutningur fólks til landsins mæti vel þeirri eftirspurn eftir vinnuafli. Slíkur aðflutningur hingað til lands hefur verið í sögulegu hámarki síðustu mánuði.
Atvinnuleysi mældist 3,5% í mars og minnkaði úr 3,7% í febrúar. Í flestum atvinnugreinum virðist hafa dregið úr eftirspurn eftir starfsfólki frá því í desember en hefur þó snarlega aukist í greinum tengdum ferðaþjónustu.
Vegna árstíðasveiflna má búast við að það dragi lítillega úr atvinnuleysi á næstu mánuðum en atvinnuleysi er að jafnaði hæst um vetur og minnst um hásumar. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Seðlabankann töldu 55,6% stjórnenda í mars að framboð á starfsfólki væri nægt, en 44,4% sögðust telja skorta starfsfólk.
Fyrirtæki sem tengd ferðaþjónustu, flutningum og samgöngum sjá fram á verulega fjölgun starfsmanna en fyrirtæki í sjávarútvegi og fjármála- og tryggingarstarfsemi sjá hins vegar fram á fækkun starfsmanna á næsta hálfa árinu. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eru einnig líklegri til að stækka við sig en fyrirtæki á landsbyggðinni.
Þar sem nýsamþykktir kjarasamningar gilda aðeins til eins árs má því gera ráð fyrir að óvissan á vinnumarkaði verði strax í haust orðin álíka mikil og hún var í aðdraganda síðustu samningalotu. Samkvæmt greiningunni hefur spennan aukið á launaþrýsting og bætt samningsstöðu launafólks frá því að faraldrinum lauk.