Vísitala raungengis íslensku krónunnar, á mælikvarða verðlags, þ.e. þegar gengi krónunnar hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur hækkað verulega á undanförnum misserum og nálgast nú svipuð gildi og í uppgangi ferðaþjónustunnar á árunum fyrir heimsfaraldur.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars. Þetta er hæsta gildið frá ágúst 2018.

Meðaltal vísitölunnar frá árinu 1980 er 86,25 stig, og 84,16 stig frá aldamótum. Síðan í árslok 2023 hefur vísitalan hækkað um 5,94% og um 8,94% síðustu tvö ár.
Sé horft til raungengis frá 1980 hefur það aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú – á tímabilunum 2017-18, 2005-07, 1987-89 og 1980-81.
Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur telur að hækkun raungengis hafi líklega náð hámarki í bili og að lækkun þess sé líkleg á næstu misserum.
„Mér finnst allt benda til þess að raungengið ætti að lækka, eða a.m.k. ekki hækka meira. Slík aðlögun á sér sjaldan stað jafnt og þétt og það er ómögulegt að stýra henni með beinum hætti. Í því samhengi velti ég fyrir mér nýjum inngripum Seðlabankans sem kynnt voru sem aðgerðir til að stækka gjaldeyrisforðann.“
Þannig tilkynnti Seðlabanki Íslands nýverið að hann hygðist kaupa sex milljónir evra vikulega á millibankamarkaði.
Samkvæmt tilkynningu frá bankanum sé meginmarkmið aðgerðanna að efla gjaldeyrisforða bankans og mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs.
„Þegar Seðlabankinn grípur inn í markaðinn er hann yfirleitt varfærinn og vill ekki sýna á öll spilin. Ég velti því fyrir mér hvort þessi inngrip séu líka að einhverju leyti drifin áfram af því að gengið er mjög sterkt – og að veikara gengi sé ásættanlegt svo lengi sem það ógni ekki verðstöðugleika.“

Hann bendir á að mjög sterkt gengi geti skapað ójafnvægi ef það varir lengi.
„Seðlabankinn vill mögulega koma í veg fyrir að gengið styrkist frekar. Ef það fer langt frá jafnvægisgildi getur það skapað vandamál síðar. Mér finnst sérstakt að bankinn segist gera þetta eingöngu til að stækka gjaldeyrisforðann – því það er alls ekkert neyðarástand á stöðu forðans. Mér finnst líklegt að bankinn geri þetta ekki síður því að að gengið má veikjast lítillega, og metur það sem tiltölulega meinlaust svo framarlega sem breytingin verður hófleg.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.