Lítill hópur fjárfesta hagnaðist um 99,6 milljónir dala, eða um 13 milljarða króna, á því að kaupa Melaniu Trump rafmyntina nokkrum mínútum áður en hún var kynnt opinberlega, samkvæmt úttekt Financial Times.
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, tilkynnti um $MELANIA rafmyntina í færslu á samfélagsmiðlum þann 19. janúar síðastliðinn, nokkrum klukkutímum áður en eiginmaður hennar tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna.
Á þeirri tveimur og hálfum mínútum áður en færslan hennar fór í loftið á Truth Social samfélagsmiðlinum, keyptu umræddir aðilar Melaniu rafmyntina að andvirði 2,6 milljónir dala í gegnum 24 rafmyntaveski.
Hópurinn stórgræddi á því að verð rafmyntarinnar tók á flug eftir að færsla Melaniu fór í loftið. Samkvæmt úttekt FT losuðu þessi rafmyntaveski mjög hratt um Melaniu rafmyntirnar en um 81% af því sem þeir seldu átti sér stað innan tólf klukkutíma frá því að forsetafrúin birti færsluna.
Eitt af ofangreindum rafmyntaveskjum keypti fyrir 681 þúsund dala, eða 88 milljónir króna, í einum viðskiptum 64 sekúndum áður en upplýst var um tilvist Melaniu rafmyntarinnar opinberlega. Á innan við sólarhring hafði þessi reikningur selt megnið af rafmyntum sínum fyrir um 39 milljónir dala, eða yfir 5 milljarða króna. Hann seldi eftirstandandi eign sína fyrir 4,4 milljónir dala, eða um 570 milljónir króna næstu þrjá daga þar á eftir.
$MELANIA rafmyntinni var ýtt úr vör tveimur dögum eftir að viðskipti með $TRUMP, rafmynt Donalds Trumps, hófust. Ólíkt Melaniu rafmyntinni hófust viðskipti með Trump rafmyntina ekki fyrr en 42 sekúndum eftir að Trump tilkynnti um tilvist rafmyntarinnar á Truth Social.