Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2024 og ekki verið hærra í nærri fimm áratugi. Verðið hefur frá því í nóvember staðið í á bilinu 3-4 Bandaríkjadölum á pundið, eða sem nemur á bilinu 6,5-9 dölum á kílóið.

Til samanburðar var kaffiverð á heimsmarkaði á bilinu 1-2 Bandaríkjadalir á pundið árin áður.

Öfgar í veðri hafa leitt til uppskerubrests í stærstu ræktunarlöndunum.

Í Brasilíu, þar sem um 40% af kaffi heimsins er ræktað, hefur verið mikill þurrkur undanfarin ár og uppskeran verið undir meðaltali í nokkur ár í röð. Greinendur eru svartsýnir á að uppskeran taki við sér á þessu ári.

Í Víetnam, þar sem um 17% af kaffi heimsins er ræktað, hefur sömuleiðis verið mikill þurrkur en einnig alvarleg flóð á síðasta ári sem fylgdu fellibylnum Yagi. Á sama tíma og framboð á kaffi dregst saman hefur heimseftirspurn eftir kaffi stöðugt aukist á síðustu árum.

Innkaupaverð hækkað um 60% milli fjórðunga

Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi, bendir á að greinendur á hrávörumarkaði hafi spáð 5% samdrætti í uppskeru kaffis í Brasilíu sem gæti haft veruleg áhrif á framboð á kaffimarkaði. Á sama tíma hefur eftirspurn aukist um 1-3% á ári undanfarin ár.

„Allt bendir til þess að uppskeran á næstu mánuðum muni valda vonbrigðum. Það gæti leitt til þess að fjármagnið sem hefur leitað á hrávörumarkaði verði þar áfram og viðhaldi háu verði.“

Guðmundur bætir við að innkaupaverð á kaffi á fyrsta ársfjórðungi hafi nú þegar hækkað um meira en 60% miðað við fjórðunginn á undan. Þó hafði verðið þá verið töluvert hærra en á fyrri fjórðungum.

„Óvissan er mikil, eins og á mörgum öðrum sviðum heimsins í dag. Spurningin er ekki hvort kaffiverð muni hækka meira á þessu ári, heldur hversu mikið. Ég sé ekki fram á neinar lækkanir úr því sem komið er. Og jafnvel þó að verðið lækki eitthvað, þá verður kaffiverð engu að síður mjög hátt miðað við meðalverð síðustu ára.“

Lítið svigrúm til hagræðinga

Guðmundur segir lítið svigrúm til hagræðinga í innkaupum. Te & Kaffi kaupir kaffi úr efstu hillu, sem þýðir að möguleikar til að halda aftur af innkaupaverðshækkunum eru takmarkaðar. Fyrirtækið hefur því neyðst til að hækka vöruverð.

„Það eru litlar aðrar bjargir sem við höfum eins og staðan er núna. Undanfarin ár höfum við þegar gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða, en þessi staða er allt annars eðlis. Hækkunin er svo mikil að við höfum enga leið til að mæta henni nema með verðhækkunum, sem er aldrei skemmtilegt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.