Indó sparisjóður tapaði tæplega 281 milljón króna árið 2024, samanborið við tæplega 327 milljónir árið á undan.
„Ör tekjuvöxtur verður til þess að indó mun skila jafnvægi í rekstri mun fyrr en áætlað var og hraðar en aðrir áskorendabankar í Evrópu,“ segir í tilkynningu sem sparisjóðurinn sendi frá sér í morgun.
Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri indó, segir að áskorendabankar sem Indó hefur horft til í öðrum löndum hafi yfirleitt þurft a.m.k. 7-10 ár til að ná jafnvægi í rekstri.
„Miðað við stöðuna nú mun það gerast mun fyrr hjá okkur en um leið erum við í kjörstöðu til að umbylta bankaþjónustu fyrir íslensk heimili. Indóar spöruðu 922 milljónir í bullgjöld á síðasta ári, Íslendingar gætu hins vegar samkvæmt okkar útreikningum sparað um 10 milljarða í óþörf gjöld og þóknanir á ári svo það er nóg svigrúm til að gera betur.”
Efnahagsreikningur Indó stækkaði umtalsvert á síðasta ári en eignir jukust úr 13,1 milljarði í 23,4 milljarða. Innlán viðskiptavina nær tvöfölduðust og voru tæpir 22 milljarðar í lok árs miðað við 11,5 milljarða árið á undan.
„Þetta veitir indó mikilvægt svigrúm til að auka útlán jafnt og þétt í náinni framtíð.“
Virkum kortanotendum Indó fjölgaði um 66% milli ára og voru rúmlega 57 þúsund í lok síðasta árs. Kortavelta jókst um 136% á síðasta ári. Viðskiptavinir greiddu tæplega 600.000 kröfur í indó appinu á síðasta ári.
„Indó heldur áfram að vaxa hraðar en björtustu vonir okkar gerðu ráð fyrir. Innlán tæplega tvöfölduðust á síðasta ári, sem gerir okkur kleift að auka framboð á útlánum hraðar og fyrr en við gerðum ráð fyrir. Það sem skiptir samt mestu máli er það hversu mörg líta á indó sem sinn aðalviðskiptabanka. Þetta sýnir að fólk treystir okkur og kann að meta þjónustuna sem við veitum. Þetta er mikilvægur grunnur að góðum rekstri,“ segir Tryggvi.
„Við ætlum að bjóða fleiri indóum einföld lán án bullgjalda og auka vöruframboðið jafnt og þétt til að svara hefðbundnum fjármálaþörfum fjölskyldna á Íslandi.“
Félagið segir að það standi til á þessu ári að auka jafnt og þétt vöruframboð til að mæta kröfum fleiri og ólíkra viðskiptavina. Á árinu hafi Indó þegar kynnt m.a. dúett sem geri pörum og öðrum kleift að hafa sameiginleg fjármál. Sjálfvirkar millifærslur, beingreiðslur og betri yfirsýn yfir útgjöld heimilisins er meðal nýjunga sem von er á á næstunni.
Framundan sé aukið aðgengi að útlánum og nýjum lánavörum sem munu jafnframt styrkja tekjugrunn indó. Þá standi til að bjóða sameiginlegan sparnað fyrir pör og vini.
„38% Íslendinga nefna nú indó sem fyrsta val í bankaþjónustu, fleiri en nefna nokkuð annað fjármálafyrirtæki. Viðtökurnar hafa því verið framar öllum væntingum.“